Viðskipti innlent

Bjóða mögulegum leigjendum ókeypis leigu fyrstu mánuðina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
H&M mun opna í Smáralind í Debenhams-rýminu sem sjá má fyrir miðri mynd.
H&M mun opna í Smáralind í Debenhams-rýminu sem sjá má fyrir miðri mynd. Vísir/Ernir
Stóraukin verslun Íslendinga á netinu er þegar farin að valda titringi og eru skýr merki um að verslanir haldi nú að sér höndum og leiti leiða til þess að fækka fermetrum.

Við þessu hafa stjórnendur stóru verslunarmiðstöðvanna tveggja, Kringlunnar og Smáralindar þurft að bregðast en fram kemur í umfjöllun Markaðarins í dag að í Smáralind hafi mögulegum leigjendum til að mynda boðist afslættir og ívilnanir.

Hefur þeim jafnvel boðist ókeypis leiga í tiltekin tíma til þess að hægt sé að fylla laus verslunarrými. Þá hefur Markaðurinn jafnframt heimildir fyrir því að nokkrar verslanir í Smáralind eigi í erfiðleikum með að greiða tilskilda leigu.

Viðmælendur Markaðarins sem þekkja vel til á innlendum smásölumarkaði segja áhrifanna af aukinni netverslun ekki farið að gæta af eins miklum þunga hér á landi og víða annars staðar.

Þeir telja hins vegar ljóst að smásalar og forsvarsmenn Kringlunnar og Smáralindar verði að vera vel á verði og búa sig undir gjörbreytt umhverfi. Innreið alþjóðlegra risa á borð við Costco og H&M hingað til lands hafi hrist upp í markaðinum, en mesti skellurinn verði þegar netverslun fari almennilega á flug. Stjórnendur verslunarmiðstöðvanna segjast þó ekki ætla að sitja með hendur í skaut.

Ítarlega umfjöllun Markaðarins um stöðuna á smásölumarkaði má nálgast með því að smella hér.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×