Lífið

Jóga fyrir tættar mæður og þreytta feður

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigrún Halla segir að hugleiðsla sé gott tæki til að vinna úr erfiðum upplifunum.
Sigrún Halla segir að hugleiðsla sé gott tæki til að vinna úr erfiðum upplifunum. Sigrún Halla
„Ég á það til að setja ullarsokka á hendurnar á barninu mínu, skilja eftir kveikt á eldavélarhellunum og fara út úr húsi og ég man aldrei nokkurn tíman eftir afmælisdögum.“

Þetta segir Sigrún Halla, jógakennari, um kveikjuna að námskeiðinu sem hún er að fara af stað með sem er undir yfirskriftinni „jóga fyrir tættar mæður og þreytta feður.“ Hún segir að sín leið til að „halda sönsum“ sé að stunda Kundalini jóga og því segir Sigrún að titill námskeiðsins sé í höfuðið á sjálfri sér

„Ég veit að það eru ótalmargir þarna úti, konur og karlar, sem eru í sömu sporum og ég. Þaðan spratt þessi hugmynd að vera með jóga fyrir tættar mæður og þreytta pabba,“ segir Sigrún.

Sigrún Halla segir fjölskyldur vera undir miklu álagi.Helgi Ómarsson
Í námskeiðslýsingunni segir: „Álag og áreiti sem við búum við í dag er gríðarlegt“ og þá segir Sigrún í samtali við Vísi að utanaðkomandi álag hafi aukist til muna á fjölskyldur eins og þær leggi sig.

„Það er svo mikil pressa að standa sig á öllum vígstöðvum; í vinnunni, í uppeldinu og í félagslífinu. Það er svo mikið álag sem fylgir öllu þessu upplýsingaflæði sem við verðum fyrir í gegnum samfélagsmiðla, án þess að gera lítið úr upplifun fyrri kynslóða,“ segir Sigrún sem bætir við að í sífellu þurfi að gera og græja.

Spurð að því hvort hún mæli með námskeiðinu fyrir konur sem þjáist af fæðingarþunglyndi svarar Sigrún játandi. „Hugleiðsla er gott tækifæri til úrvinnslu á erfiðum upplifunum,“ segir Sigrún sem bendir á að ávinningur þess að stunda jóga sé fjölþættur:

„Kundalini jóga, sem er það jóga sem ég kenni er, kallað jóga meðvitundar. Tækni til að finna tengingu við sjálfan sig og umheiminn. Það styrkir taugakerfið, innkirtlakerfið, ónæmiskerfið, lungun, eykur einbeitingu, minnkar streitu. Ég gæti haldið lengi áfram,“ segir Sigrún.

Á námskeiðinu segir Sigrún að verði lögð áhersla á að minnka streitu, auka einbeitingu og jafnvægi í líkamanum.

„Ójafnvægi í huganum getur komið fram sem líkamleg einkenni og líkamlegir kvillar geta valdið ójafnvægi í huganum. Ef við erum þreytt og tætt og eigum erfitt með að ná utan um hlutina, þá er besta ráðið að koma jafnvægi á sjálfan sig. Um leið og því er náð er auðveldara að koma jafnvægi á hlutina í kringum þig,“ segir Sigrún.

Standa fyrir „jógaþoni“

Námskeiðið er kennt í jógasal Ljósheima en í boði er „opin vika“ dagana 28. ágúst – 2. september þar sem frítt er í alla tíma samkvæmt stundaskrá. Svo ætla þær að enda dagskrána á sunnudeginum 3. sept. með jógaþoni. Fólk getur stundað jóga allan daginn.

„Við ætlum að vera með stanslaust jóga frá 10:00-22:00 þar sem allir tímarnir eru kenndir í stuttri útgáfu eða 30 mínútur hver tími. Þá gefst fólki tækifæri á að prófa sem flestar tegundir af jóga sem boði eru í Ljósheimum í vetur,“ segir Sigrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×