Erlent

Kris Kristofferson ákærður fyrir fíkniefnasmygl í Færeyjum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kris Kristofferson hafði leikið á tónleikum í Hörpu skömmu áður en hann var handtekinn í Færeyjum.
Kris Kristofferson hafði leikið á tónleikum í Hörpu skömmu áður en hann var handtekinn í Færeyjum. Vísir/Getty
Bandaríski kántrýsöngvarinn og Íslandsvinurinn Kris Kristofferson hefur verið ákærður fyrir að smygla fíkniefnum til Færeyja.

Kristofferson, sem er meðal þekktustu listamanna heims á sínu sviði, var handtekinn við komuna til Þórshafnar í fyrra þar sem hann hugðist leika á tónleikum þann 1. september. 

Við leit á honum fundust kannabisefni sem tekin voru af söngvaranum á flugvellinum. Að sögn Kringvarpsins verður mál hans tekið fyrir í færeyskum dómstólum eftir helgi.

Í stuttu samtali við Kringvarpið segir umboðsmaður söngvarans, Tamara Saviano, að um maríjúana í lækningaskyni hafi verið að ræða.

„Kris Kristofferson var með nokkrar dósir af marijúana á sér sem hann hafði fengið uppáskrifað frá lækni en það er löglegt í Kaliforníu. Efnin voru tekin af honum á flugvellinum í Færeyjum og hann fékk sekt upp á 160 dali,“ segir Saviano en 160 dalir eru rúmlega 16 þúsund íslenskar krónur. Hann lét ekki handtökuna í fyrra á sig fá og hélt aðra tónleika í Færeyjum á G!-festival í sumar.

Söngvarinn, sem varð áttræður á síðasta ári, hefur talað opinskátt um grasreykingar sínar í gegnum árin. Þannig afskrifaði hann það í samtali við tímaritið Rolling Stone í fyrra að minnisleysi sitt mætti rekja til reykinganna.

„Ég mun ekki hætta að reykja. Ég er handviss um að þær hægi á mér og geri mig ekki að sneggsta manninum í herberginu en ég mun eflaust reykja þangað til að ég fer yfir móðuna miklu,“ sagði Kristofferson.

 


Tengdar fréttir

Kris Kristofferson með tónleika í Hörpu

Goðsögnin- kántrístjarnan – leikarinn- söngvarinn- lagahöfundurinn og söngvaskáldið Kris Kristofferson heldur tónleika í Eldborgarsal Hörpu, þann 26. september í haus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×