Erlent

Konan sem barðist gegn Brexit fær hótanir um sýruárásir

Kjartan Kjartansson skrifar
Miller hefur mátt þola hótanir og ofsóknir eftir að hún höfðaði mál gegn ríkisstjórninni til að tryggja að breska þingið fengi að taka afstöðu til Brexit.
Miller hefur mátt þola hótanir og ofsóknir eftir að hún höfðaði mál gegn ríkisstjórninni til að tryggja að breska þingið fengi að taka afstöðu til Brexit. Vísir/AFP
Gina Miller, bresk kona sem vann mál fyrir dómstólum sem neyddi ríkisstjórnina til að leggja Brexit fyrir þingið, segist hafa fengið hótanir um sýruárásir um margra mánaða skeið. Hún sé hrædd við að fara út úr húsi og íhugar að yfirgefa Bretland.

„Ég hef fengið hótanir um sýru verði skvett í andlitið á mér í marga mánuði. Þegar ég sé einhvern ganga á móti mér úti á götu með vatnsflösku eða eithvað þá fer ég yfir um,“ segir Miller við fréttavefinn Verdict og The Guardian hefur eftir.

Hæstiréttur Bretlands staðfesti í janúar að ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra yrði að leggja útgöngu Breta úr Evrópusambandinu fyrir breska þingið.

Verðlaun boðin þeim sem æki yfir hana

Miller höfðaði málið upphaflega og hefur hún orðið skotspónn æstra stuðningsmanna Brexit fyrir vikið. Hún er eigandi fyrirtækis og er ættuð frá Bresku Gvæjana.

Nýlega var fimmtugur karlmaður dæmdur í tólf vikna fangelsis fyrir kynþáttaníð gegn Miller á samfélagsmiðlum. Sami maður bauð verðlaun fyrir hvern þann sem æki á Miller rétt eftir dóm Hæstaréttar.

Öryggisverðir gæta Miller nú allan sólahringinn og heldur fjölskylda hennar sig nú heima við um helgar til að forðast uppnám ef hún lætur sjá sig úti við.

„Ef þetta verður einhvern tímann of mikið út frá öryggissjónarmiðum, ef ég settist niður með lögreglusveitunum og okkur fyndist þetta vera virkilega alvarleg hótun, þá þyrfti ég að íhuga alvarlega að yfirgefa Bretland,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×