Erlent

Þingmenn Ástrala mega ekki hafa tvöfalt ríkisfang

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Barnaby Joyce sést fyrir miðri mynd. Hann situr í hópi fleiri ráðherra og bíður eftir óundirbúnum fyrirspurnum frá stjórnarandstöðunni.  FRÉTTABLAÐIÐ/EPA
Barnaby Joyce sést fyrir miðri mynd. Hann situr í hópi fleiri ráðherra og bíður eftir óundirbúnum fyrirspurnum frá stjórnarandstöðunni. FRÉTTABLAÐIÐ/EPA vísir/epa
Pólitískur frami aðstoðarforsætisráðherra Ástralíu gæti verið í hættu eftir að upp komst að hann er með tvöfalt ríkisfang. Hann og fleiri þingmenn íhuga að fara með málið fyrir dómstóla.

Í Ástralíu er í lögum að óheimilt sé að sitja á þingi sé maður með tvöfalt ríkisfang. Löggjöfin var nokkuð óþekkt þar til hún var dregin fram í dagsljósið í síðasta mánuði. Afleiðingin er sú að stjórnmálamenn hafa þurft að róta í ættarskrám til að sýna fram á þjóðerni sitt.

Málið er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að um helmingur þeirra 24 milljóna sem búa í Ástralíu fæddust í öðru landi eða eiga foreldri sem fæddist í öðru landi.

„Það kom mér mjög á óvart að komast að þessu,“ segir aðstoðarforsætisráðherrann Barnaby Joyce. „Ég er fæddur í Tamworth í Nýja Suður-Wales. Hvorki ég né foreldrar mínir höfðum nokkra ástæðu til að ætla að ég væri ríkisborgari í öðru landi.“

Þessi mál hafa verið í umræðunni síðan í síðasta mánuði eftir að Scott Ludlam, leiðtogi Græningja, sagði af sér eftir að hann uppgötvaði að hann var einnig Nýsjálendingur. Þingmaður og ráðherra, annar fæddur í Kanada og hinn af ítölskum ættum, hafa þurft að fara sömu leið. Nú er staða Joyce í hættu eftir að í ljós kom að faðir hans fæddist á Nýja-Sjálandi. Sem sonur hans er hann sjálfkrafa með nýsjálenskt vegabréf.

Talið er að þingmennirnir ætli að sameina mál sín og reka þau fyrir dómstólum landsins til að fá á hreint hvort lögin samræmist stjórnskipan landsins.

Framtíð Joyce gæti haft áhrif á líftíma ríkisstjórnarinnar en hún hefur aðeins eins manns meirihluta á þingi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×