Erlent

Saumar út 200 myndir af typpum

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Silje hefur tekið upp á því að sauma út myndir af typpunum til að gagnrýna þessa venju karlmanna og varpa ljósi á vandamálið.
Silje hefur tekið upp á því að sauma út myndir af typpunum til að gagnrýna þessa venju karlmanna og varpa ljósi á vandamálið. Skjáskot
Kona nokkur í Noregi, Silje Gabrielsen, hefur óumbeðið fengið sendar alls 200 typpamyndir frá ýmsum mönnum sem hún þekkir lítið sem ekkert. Mennirnir höfðu samband við hana í gegnum einkamálasíður. Það kom henni heldur betur á óvart hversu margir karlmenn telja það eðlileg samskipti að senda konum sem henni myndir af kynfærum sínum.

Silje hefur tekið upp á því að sauma út myndir af typpunum til að gagnrýna þessa venju karlmanna og varpa ljósi á vandamálið. Þetta er hluti af mastersverkefni hennar frá Háskólanum í Agder.

„Mér fannst þetta vera svo bilað að ég varð að gera eitthvað með þetta. Með því að sauma út typpa-myndirnar þá er ég að skrá niður anga samfélagsins,“ segir Silje í samtali við NRK.

Valdið er hennar

Hún leggur áherslu á að með þessu sé hún að taka valdið í sínar hendur. Ljósmyndirnar séu svo óviðeigandi fyrst en þegar þær eru bróderaðar þá breytist merkingin á bak við þær.

„Ég hef fengið sendar margar myndir af getnaðarlimum karla. Ég skil ekki hvernig þeir voga sér að gera þetta. Skilja þeir ekki að myndir sem þessar geta verið misnotaðar og trúa þeir virkilega að konum líki þetta,“ segir Silje.

Margar norskar konur hafa fengið óviðeigandi myndir sendar frá ókunnugum karlmönnum og eflaust þó nokkrar íslenskar konur líka.

Bein tenging milli getnaðarlims og kynlífs

Haft er eftir Elsu Almås sálfræðingi og kynfræðingi að menn kjósi að senda þessar myndir þar sem getnaðarlimur þeirra sé þeim ofarlega í huga þegar kemur að kynvitund þeirra. Konur upplifi þetta hins vegar sem áreiti.

Þá segir hún jafnframt að klámmyndir hafi ýtt þróuninni í þá átt að karlmenn  misskilji það hvað konur þrá þegar það kemur að kynlífi.

„Margir átta sig á að svona myndbirting virki ekki vel til að mynda til náins sambands við konu. En ég held að þegar menn ákveða að senda svona mynd að þá fari þeir inn í einskonar draumaheim. Þeir vona að myndunum verði tekið vel,“ segir Elsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×