Erlent

Game of Thrones-stjarna vill að fólk hætti að kaupa husky-hunda

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Peter Dinklage er meðal fárra leikara Game of Thrones sem enn fær að halda lífi í þáttunum - enda eru vinsældir Tyrions Lannisters ótvíræðar.
Peter Dinklage er meðal fárra leikara Game of Thrones sem enn fær að halda lífi í þáttunum - enda eru vinsældir Tyrions Lannisters ótvíræðar. Vísir/AFP
Game of Thrones-leikarinn Peter Dinklage hvatti í dag aðdáendur þáttanna til þess að hætta að kaupa husky-hunda. Hundategundin svipar um margt til úlfanna sem eru fyrirferðamiklir í hinum geysivinsælu þáttum og hefur eftirspurnin eftir þeim margfaldast frá því að þættirnir voru fyrst teknir til sýninga.

Hins vegar virðist margir sem kaupa sér slíka hunda ekki gera sér grein fyrir því hvað þeir þurfa mikla athygli og umhirðu. Hafa því margir eigendur gefist upp á umstanginu og farið með þá í hundaathvörf, ef marka má frétt AFP.

Peter Dinklage sendi frá sér yfirlýsingu í dag, í samvinnu við dýraverndunarsamtökin PETA, þar sem hann vekur máls á þessari tískubylgju.

Husky-hundar eru ekki ósvipaðir úlfunum sem leika stóra rullu í Game of Thrones.Vísir/AFP
„Til allra hinna dásamlegu aðdáenda Game of Thrones, okkur skilst að í ljósi vinsælda úlfanna séu margir að kaupa sér husky-hunda," segir hinn ráðagóði Tyrion Lannister í yfirlýsingunni.

„Dýraathvörf greina nú frá því að fjölmargir komi þangað með husky-hundana sína en fjölmargir hvatvísir hafi keypt hundana án þess að átta sig á þörfum þeirra,“ segir leikarinn og hvetur til að óreyndir dýravinir ættleiði annars konar hunda í staðinn.

PETA segir að í kjölfar vinsælda þáttanna, sem rötuðu fyrst á sjónvarpskjáina árið 2011, hafi dýraathvörf í Bretlandi tekið við 700% fleiri husky-hundum en árin áður. Tvö athvörf í norðurhluta Kaliforníu hafa svipaða sögu að segja en þar hefur umkomulausum husky-hundum fjölgað um 200% á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×