Erlent

Frakkar hafna opinberu embætti forsetafrúar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Brigitte Macron hefur verið mikið í sviðsljósinu frá því að Emmanuel Macron tók við embætti forseta. Á dögunum tók hún á móti söngkonunni Rihönnu og ræddu þær saman um stuðning Frakka við góðgerðarsamtök.
Brigitte Macron hefur verið mikið í sviðsljósinu frá því að Emmanuel Macron tók við embætti forseta. Á dögunum tók hún á móti söngkonunni Rihönnu og ræddu þær saman um stuðning Frakka við góðgerðarsamtök. vísir/epa
Brigitte Macron, eiginkona Emmanuels Macron Frakklandsforseta, mun ekki gegna opinberu hlutverki forsetafrúar Frakklands. Frá þessu greindi Telegraph í gær og vísaði í heim­ildar­menn innan frönsku ríkisstjórnarinnar sem og franska fjölmiðla. Tók forsetinn þessa ákvörðun í kjölfar þess að 280.000 Frakkar mótmæltu því að forsetafrúin fengi slíkt hlutverk.

Áður hafði talsmaður ríkisstjórnarinnar, Christophe Castaner, tíst því að Brigitte Macron myndi ekki gegna neinu slíku hlutverki. Tíst Castaner dugði hins vegar ekki til að kveða niður orðróm þess efnis.

Ekki er gert ráð fyrir opinberu hlutverki forsetafrúar í frönsku stjórnarskránni og þá er ekki hefð fyrir slíku í frönskum stjórnmálum, þótt forsetafrúin fái venjulega skrifstofu í Elysées-höll og ráði aðstoðarmenn. Forsetinn lofaði því hins vegar fyrir forsetakosningarnar fyrr á árinu að Brigitte Macron fengi opinbert hlutverk og vakti það loforð jafnt neikvæða sem jákvæða athygli.

Ríkisstjórn Frakklands áformar á næstunni að setja lög sem meina þingmönnum að ráða sér aðstoðarmenn úr skylduliði sínu og er það liður í átaki forsetans gegn spillingu. Skemmst er að minnast þess er Francois Fillon, forsetaframbjóðandi Repúblikana, missti stóran hluta fylgis síns vegna gruns um að hann hefði borgað vandamönnum sínum laun fyrir óunnin störf. Var Macron­ því sakaður um hræsni þegar til stóð að gera hlutverk forsetafrúar formlegt.

Ljóst er að franska þjóðin er ekki hrifin af því að gera hlutverk forsetafrúar formlegt og opinbert, líkt og tíðkast í Bandaríkjunum. Um 280.000 undirskriftir söfnuðust gegn áformunum og þá sýnir könnun YouGov að 68 prósent Frakka eru andvíg því að maki forseta fái opinbert hlutverk.

Á næstu dögum stendur þó til að birta skýrslu um hlutverk Brigitte Macron. Segja talsmenn ríkisstjórnarinnar það gert í nafni gegnsæis. Mun skjalið skýra hlutverk forsetafrúarinnar, án þess þó að stofnað sé sérstakt embætti í kringum hana. Þá verða upplýsingar gerða opinberar um hvað forsetafrúin kostar skattgreiðendur.

Deilan um hlutverk Brigitte Macron­ er til marks um þau vandræði sem eiginmaður hennar hefur lent í undanfarna daga. Nú, þremur mánuðum eftir að hann var kjörinn, eru vinsældir hans að dvína hratt. Nýlegar kannanir sýna í fyrsta sinn að fleiri eru andvígir forsetanum en hlynntir honum.

Samkvæmt nýrri könnun YouGov og Huffington Post nýtur forsetinn stuðnings 36 prósenta Frakka. Ef marka má þá könnun er Macron óvinsælli en Donald Trump Bandaríkjaforseti. Sá nýtur stuðnings 38 prósenta þjóðar sinnar ef marka má kannanir Gallup og CNN sem báðar birtust á sunnudag. Enginn Bandaríkjaforseti hefur notið jafn lítils stuðnings eftir jafn stuttan tíma í embætti frá því sambærilegar mælingar hófust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×