Erlent

Mótmæla ákvörðun Macron að veita konu sinni starfstitil

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Emmanuel Macron tók við embætti Frakklandsforseta í maí síðastliðinn.
Emmanuel Macron tók við embætti Frakklandsforseta í maí síðastliðinn. Vísir/AFP
Um 200 þúsund frakkar hafa skrifað undir undirskriftalista til að mótmæla ákvörðun Emmanuels Macron, forseta Frakklands, að stofna til embættis og starfstitils fyrir konu sína Brigitte Macron, sem gerir hana formlega að forsetafrú og veitir henni starfsskyldur sem falla undir titilinn. Brigitte myndi ekki fá laun fyrir starfið. Reuters greinir frá.

Vilja margir meina að forsetinn sé að breyta embætti forsetahjónanna í átt að því sem þekkist Bandaríkjunum þar sem forsetafrúin gegnir ákveðnum skyldum og sinnir formlegu starfi forsetafrúarinnar. Franska forsetafrúin hefur hingað til ekki sinnt neinu ákveðnu hlutverki en þær hafa, í gegnum árin, tekið að sér að vera óformlegir stuðningsaðilar við ýmis málefni.

Umræðan kemur í kjölfar þess að franska þingið, undir stjórn flokks Macrons En Marche,  hefur komið fram með löggjöf sem bannar þingmönnum að nýta stöðu sína og veita skyldmennum sínum launuð störf á vegum ríkisins.

Mótframbjóðandi Macrons í frönsku forsetakosningunum var til að mynda harðlega gagnrýndur eftir að upp komst að hann hafði greitt konu sinni fé úr ríkissjóði fyrir vinnu sem hún átti að hafa innt af hendi fyrir franska þingið; vinnu sem hún kom í raun ekki nálægt.

„Það er verið að biðja meðlimi þingsins og ráðamenn að ráða ekki maka sína í vinnu en gera undantekningu fyrir konu Emannuels Macron. Þetta er þversögn,“ segir Thierry Paul Valette, sem stóð fyrir undirskriftasöfnuninni. Samkvæmt könnun sem Huffington Post gerði í maí eru 68 prósent frakka á móti því að veita forsetafrúnni formlegan starfstitil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×