Erlent

Lokkuðu fjölda stúlkna til sín með vímuefnum og nauðguðu þeim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Um er að ræða átján sakborninga, sautján karlmenn og eina konu.
Um er að ræða átján sakborninga, sautján karlmenn og eina konu. Lögreglan í Northumberland
Sautján karlmenn og ein kona hafa verið dæmd sek fyrir aðild að vændis- og mansalshring í bresku borginni Newcastle. Sakborningarnir buðu ítrekað stúlkum á aldrinum 13-25 ára eiturlyf og nauðguðu þeim eða neyddu til annarra kynlífsathafna í skiptum fyrir efnin.

Brotin, sem eru mjög viðamikil, voru framin á árunum 2011-2014 en fyrstu ásakanir á hendur fólkinu komu fram í desember árið 2013. Þá var fyrst ákært í málinu í febrúar 2015 en fjórðu og síðustu réttarhöldunum yfir sakborningum málsins lauk í dag, að því er fram kemur á vef The Guardian.

Unnu sér inn traust stúlknanna og lokkuðu þær á staðinn með vímuefnum

Karlmennirnir sautján hafa verið dæmdir sekir fyrir nær hundrað brot samanlagt. Þeir voru meðal annars dæmdir fyrir nauðganir, mansal, að hafa samráð um vændisstarfsemi og fíkniefnatengd brot.

Mennirnir stofnuðu til vinskapar við yfir tuttugu stúlkur á aldrinum 13-25 ára, unnu sér inn traust þeirra og buðu að því búnu á „fundi“ í húsnæði víðsvegar um Newcastle. Stúlkurnar voru lokkaðar á staðinn með gylliboðum um áfengi og fíkniefni. Þeim var svo nauðgað eða þær látnar bjóða upp á kynlífsþjónustu í skiptum fyrir efnin.

Í dómnum yfir mönnunum kemur fram að þeir hafi sérstaklega brotið á stúlkum sem voru varnarlausar og „ólíklegri til að kvarta vegna aðstæðna.“

Nokkrar ungar konur, sem báru vitni í málinu, lýstu því hvernig þeim hafði verið byrluð ólyfjan og komist svo til meðvitundar eftir að hafa verið misnotaðar kynferðislega.

Svipuð mál hafa komið upp

Einhverjir mannanna tengjast fjölskylduböndum og aðrir hafa verið vinir síðan í æsku. Málinu svipar nokkuð til annarra mála sem komið hafa upp í Bretlandi, til að mynda í bæjunum Rotherdam og Rochdale. Í öllum tilvikum er um að ræða hópa karlmanna af breskum og asískum uppruna sem misnota hvítar stúlkur en karlmennirnir í Newcastle-málinu eiga meðal annars ættir að rekja til Bangladesh, Pakistan og Indlands.

Þá hefur rannsókn málsins verið nokkuð umdeild en lögregla borgaði dæmdum barnaníðingi rúmar 1,3 milljónir króna fyrir að njósna um mennina sem síðar voru dæmdir. Maðurinn, sem lögregla borgaði, var síðar metinn vanhæfur til að bera vitni í réttarhöldunum.

Búist er við því að flestir sem sakfelldir hafa verið í málinu verði dæmdir til refsingar þann 4. september næstkomandi.

Þá þótti ástæða til að taka fram að þó að margir sakborninganna væru ákærðir fyrir samráð um vændisstarfsemi í gróðaskyni þá væri ekkert sem benti til þess að nokkurt fórnarlambanna starfaði í kynlífsiðnaði.

Nánari umfjöllun um málið má finna á vefsíðum breska dagblaðsins The Guardian og breska ríkisútvarpsins, BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×