Viðskipti innlent

„Full ástæða til að sýna ítrustu varkárni gagnvart lækkun fasteignaverðs“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjármálaeftirlitið hefur sett reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána. Samkvæmt reglunum skal hlutfallið vera að hámarki 85 prósent af markaðsverði fasteignar. Astoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins segir að tilgangurinn sé að koma í veg fyrir það sem gerðist árið 2008 þegar staða lántakenda varð óviðráðanleg við verðfall á fasteignamarkaði.

Raunverð íbúðahúsnæðis, þ.e. nafnverð að frádreginni verðbólgu, hefur hækkað umtalsvert á síðustu árum. Sé miðað við mitt þetta ár nam árshækkunin 21 prósenti. Vísbendingar eru um að áfram verði þrýstingur á fasteignaverð. Gögn Fjármálaeftirlitsins (FME) sýna að lánastofnanir hafa slakað á lánaskilyrðum að undanförnu samhliða aukinni samkeppni á fasteignalánamarkaði

FME birti í dag nýjar reglur sem hámarka leyfilegt veðsetningarhlutfall nýrra fasteignalána. Samkvæmt reglunum skal veðsetningarhlutfall vera að hámarki 85 prósent af markaðsverði fasteignar. Þegar um er að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign verður heimilt að lána allt að 90 prósent af markaðsverði.

Flestir bankarnir voru almennt ekki að lána yfir þessum mörkum en það byggðist ekki á settum reglum heldur viðmiðum um æskileg lánahlutföll. Með þessum nýju reglum verður breyting þar á enda binda þær hendur bankanna.

„Reglurnar hafa þann megintilgang að koma í veg fyrir að svipaðir hlutir gerðust og árið 2008 þegar það varð mikið verðfall á fasteignum. Þá versnaði veðstaða almennings svo um munaði og varð óviðráðanleg í mörgum tilvikum. Þótt við búumst ekki við jafn slæmu áfalli og þá þá er full ástæða til að sýna ítrustu varkárni gagnvart lækkun fasteignaverðs í framtíðinni. Reglurnar miða bæði að því að verja lántaka og lánveitendur gagnvart þessari áhættu,“ segir Jón Þór Sturluson aðstoðarforstjóri FME. 

Verð á fjöl­býli á höfuðborg­ar­svæðinu lækkaði um 0,2 prósent í júní sam­kvæmt vísi­tölu íbúðaverðs Þjóðskrár Íslands. Þetta er fyrsta lækk­un­ íbúðaverðs milli mánaða síðan í júní 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×