Erlent

Yfirvaraskegg Salvador Dalí óskaddað

Atli Ísleifsson skrifar
Salvador Dalí lést árið 1989.
Salvador Dalí lést árið 1989. Vísir/AFP
Yfirvaraskegg spænska listmálarans Salvador Dalí er óskaddað, tæpum þrjátíu árum eftir að hann lést. Frá þessu greinir Narcis Bardalet sem smurði lík Dalí eftir að hann lést árið 1989.

Í frétt BBC segir að Bardalet hafi fylgst með þegar lík Dalí var grafið upp í gærkvöldi. Var það gert til að hægt væri að ná lífsýni úr málaranum þannig að skera megi úr um hvort Dalí hafi verið faðir konunnar María Pilar Abel Martínez sem hefur haldið því fram. Tekin voru sýni úr tönnum, beinum og nöglum listamannsins.

„Þetta var eins og kraftaverk... Yfirvaraskegg hans birtist nákvæmlega í stöðunni „tíu mínútur yfir tíu“ og hárið hans var óraskað,“ sagði Bardalet í útvarpsviðtali við RAC1 í morgun.

María Pilar Abel Martínez er fædd árið 1956 og heldur því fram að móðir hennar hafi átt í ástarsambandi við málarann. Komi í ljós að hún sé dóttir hans, gæti hún átt tilkall til hluta dánarbúsins, sem nú er í eigu spænska ríkisins.

Dalí lést árið 1989 og var honum þá komið fyrir í grafhýsi sem er í safni sem tileinkað er honum í bænum Figueres í Katalóníu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×