Erlent

Forseti Póllands ætlar að stöðva umdeild lög með neitunarvaldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Talið er að slá muni í brýnu á milli Duda og stjórnarflokksins í Póllandi eftir að hann ákvað að beita neitunarvaldi gegn frumvörpum um breytingar á dómskerfi landsins.
Talið er að slá muni í brýnu á milli Duda og stjórnarflokksins í Póllandi eftir að hann ákvað að beita neitunarvaldi gegn frumvörpum um breytingar á dómskerfi landsins. Vísir/EPA
Andrzej Duda, forseti Póllands, hefur tilkynnt að hann ætli að beita neitunarvaldi sínu til að stöðva umdeild lög sem myndu gera ríkisstjórn landsins kleift að skipta út hæstaréttardómurum.

Fjöldamótmæli hafa brotist út um allt Pólland undafarna daga vegna laga sem pólska þingið hefur samþykkt. Andstæðingar laganna telja þau til marks um einræðistilburði stjórnarflokksins Laga og réttlætis. Því hafa fulltrúar flokksins hafnað.

Evrópusambandið hefur einnig varað pólsk stjórnvöld við því að breyta réttarkerfi landsins á þennan hátt. Hafa talsmenn sambandsins hótað að beita Pólverja refsiaðgerðum.

„Sem forseti tel ég ekki að þessi lög myndu styrkja lög og rétt,“ sagði Duda í sjónvarpsávarpi þegar hann tilkynnti að hann hygðist hafna tveimur af þremur frumvörpum stjórarinnar um breytingar á dómskerfinu, að sögn BBC.

Lögin sem Duda ætlar að hafna fela það í sér að allir sitjandi hæstaréttardómarar láti af embætti. Í stað þeirra muni dómsmálaráðherrann skipa nýja og þingið staðfesta þá.


Tengdar fréttir

Tugþúsundir mótmæltu í Póllandi

Tugþúsundir mótmæltu í Póllandi í dag eftir að neðri deild þingsins samþykkti frumvarp sem mun færa dómsmálaráðherra landsins völd til þess að skipa dómara við Hæstarétt landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×