Erlent

Barbara Sinatra er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Barbara Sinatra barðist ötullega gegn misnotkun barna og kom upp sérstakri miðstöð fyrir barnung fórnarlömb misnotkunar.
Barbara Sinatra barðist ötullega gegn misnotkun barna og kom upp sérstakri miðstöð fyrir barnung fórnarlömb misnotkunar. Vísir/getty
Barbara Sinatra, eiginkona söngvarans Frank Sinatra heitins, lést á heimili sínu í bænum Rancho Mirage í Kaliforníu í morgun, níutíu ára að aldri.

Fox News hefur þetta eftir talsmanni fjölskyldunnar sem segir að hún hafi andast af náttúrulegum orsökum og í faðmi fjölskyldu sinnar.

Barbara Sinatra fæddist Barbara Blakeley í Missouri og hóf störf sem fyrirsæta átján ára að aldri eftir að fjölskylda hennar flutist til Long Beach í Kaliforníu.

Skömmu eftir að hafa flust til Kaliforníu giftist hún Robert Oliver, en þau skildu. Árið 1959 giftist hún Zeppo Marx og eignuðust þau einn son.

Þau Barbara og Marx skildu hins vegar og árið 1976 giftist hún söngvaranum Frank Sinatra, sem hafði sjálfur verið giftur í þrígang. Frank Sinatra lést árið 1998.

Barbara barðist ötullega gegn misnotkun barna og kom upp sérstakri miðstöð fyrir barnung fórnarlömb misnotkunar, Barbara Sinatra Children's Center.

Frank og Barbara Sinatra árið 1993.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×