Erlent

Sænska ríkisstjórnin boðar til fréttamannafundar í fyrramálið

Atli Ísleifsson skrifar
Stefan Löfven forsætisráðherra mun sitja fyrir svörum á fréttamannafundi morgundagsins.
Stefan Löfven forsætisráðherra mun sitja fyrir svörum á fréttamannafundi morgundagsins. Vísir/AFP
Sænska ríkisstjórnin hefur boðað til fréttamannafundar í fyrramálið þar sem brugðist verður við yfirvofandi vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar gegn þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar vegna gagnaöryggishneykslis.

Frá þessu greindi Odd Guteland, fjölmiðlafulltrúi Jafnaðarmannaflokksins, nú síðdegis, en Stefan Löfven forsætisráðherra mun sitja fyrir svörum á fundinum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu saman til fundar á skrifstofum ríkisstjórnarinnar nú síðdegis og var tilkynnt um fréttamannafund morgundagsins að honum loknum.

Anna Johansson innviðaráðherra, Peter Hultqvist varnarmálaráðherra og Anders Ygeman innanríkisráðherra berjast nú fyrir pólitísku lífi sínu vegna þáttar þeirra í misheppnaðri útvistun tölvukerfis samgöngustofnunar Svíþjóðar árið 2015.

Sumar heimildir sænskra fjölmiðla herma að ríkisstjórnin muni segja af sér og opna á að bandalag hægriflokka stjórni landinu undir forsæti Anna Kinberg-Batra, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, fram að þingkosningunum sem fyrirhugaðar eru á haustmánuðum 2018. Allt mun þetta þó skýrast í fyrramálið.

Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að útboðsferlinu hafi verið flýtt og lög hafi verið virt að vettugi þegar IBM í Svíþjóð fékk samning um að reka tölvukerfið. Í kjölfarið gátu starfsmenn í Austur-Evrópu komist í viðkvæm gögn sem geymd voru í kerfinu. Meðal annars hefur komið fram að heimilisföng sænskra orrustuflugmanna gætu hafa verið aðgengileg fólki sem ekki hafði öryggisheimild til þess.


Tengdar fréttir

Sænska stjórnarandstaðan krefst afsagnar ráðherra

Þrír ráðherrar í minnihlutastjórn Stefans Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar eiga yfir höfði sér vantraust á þingi vegna hneykslismál sem varðar gagnaöryggi ríkisins. Stjórnin gæti jafnvel riðað til falls verði vanstrauststillaga stjórnarandstöðunnar samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×