Viðskipti innlent

Hagnaður Marel dregst saman

Sæunn Gísladóttir skrifar
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir samkeppnisstöðu Marel sterka og markaðsaðstæður góðar.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir samkeppnisstöðu Marel sterka og markaðsaðstæður góðar. Vísir/Valli
Marel hagnaðist um 18,6 milljónir evra, jafnvirði 1,94 milljarða íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi 2017, samanborið við 22,1 milljón evra á sama tímabili í fyrra. Hagnaður á hlut var 2,62 evru sent, samanborið við 3,09 evru sent á tímabilinu í fyrra.

Fram kemur í tilkynningu að tekjur á öðrum ársfjórðungi námu 244,0 milljónum evra, samanborið við 264,2 milljónir evra á tímabilinu í fyrra. EBITDA á öðrum ársfjórðungi 2017 var 44,2 milljónir evra sem er 18,1% af tekjum. Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 61,2 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2017, samanborið við 43,7 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

Pantanabókin stóð í 418,9 milljónum evra við lok annars ársfjórðungs 2017 samanborið við 390,3 milljónir evra við lok fyrsta ársfjórðungs 2017 og 306,5 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi 2016.

Í byrjun þriðja ársfjórðungs var stærsta pöntun í sögu Marel tryggð með samningi við Costco og Lincoln Premium Poultry í Bandaríkjunum um nýja hátækni kjúklingaverksmiðju, segir í tilkynningu.

Marel kaupir Sulmag

Marel hefur samþykkt að kaupa Sulmaq, brasilískan framleiðanda búnaðar fyrir fyrsta stig kjötvinnslu. Markmiðið er að styrkja stöðu Marel í Suður-Ameríku og tryggja betri aðgang að stækkandi vaxtarmörkuðum fyrir nauta- og svínakjöt. Árlegar tekjur Sulmaq nema um það bil 25 milljónum evra. Búist er við að kaupin gangi formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2017 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Til skemmri tíma litið munu kaupin ekki hafa efnisleg áhrif á rekstrarniðurstöðu Marel. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×