Lífið

H&M-síða innblásin af Costco-hópnum fræga

Guðný Hrönn skrifar
Íslendingar eru ólmir í bæði H&M og Costco.
Íslendingar eru ólmir í bæði H&M og Costco.
Nú bíða margir landsmenn ofurspenntir eftir að sænska keðjan H&M opni verslanir hér á landi og af því tilefni stofnaði Hilmar Ægir Þórðarson Facebook-síðu sem er innblásin af einum stærsta og virkasta Facebook-hóp landsins, Keypt í Costco Ísl.- myndir og verð.

Facebook-síða Hilmars heitir Keypt í H&M ísl - myndir og verð. „Ég ætlaði að gera Face­book-hóp en kunnátta mín á Facebook var ekki meiri en það að ég stofnaði Facebook-síðu,“ segir Hilmar.

Hilmar fékk innblástur frá Costco-hópnum en honum er ritstýrt með harðri hendi. „Ég var í henni [Costco-grúppunni] í einhverjar tvær vikur held ég. Og setti inn einhver innlegg sem var öllum hent út. Ég spurði hvort það væru til plötur með Hall & Oates og svona. Það hékk ekki lengi þarna inni,“ segir Hilmar sem er að gera góðlátlegt grín að Costco-hópnum með H&M-síðu sinni sem hefur nú fengið 2.297 „like“ síðan hún var stofnuð fyrir um tveimur vikum. Í lýsingu síðunnar segir: „Senn líður að því að H&M opni hér á landi, hér skal senda inn myndir og verð og tala illa um aðrar búðir sem selja fatnað.“

„En svo vildi ég líka búa til síðu sem fengi fleiri „like“ heldur en Facebook-síða hljómsveitarinnar Famina Futura. Fyrrverandi vinnufélagi minn og vinur er með þá síðu og ég var sko fljótur að fara fram úr honum, hann er með 470 „like“.“

Spurður út í skoðun hans á komu H&M til landsins segir Hilmar: „Ég er ánægður með að þetta sé að koma til Íslands því þá verður kannski hægt að gera eitthvað skemmtilegra þegar maður fer til útlanda. Það fer nefnilega miklu meiri tími í að hanga í H&M heldur en ákveðið var í upphafi. Fyrst er planið að fara inn og kaupa eitthvað smá fyrir krakkana, en svo er þetta yfirleitt það sinnum fjórir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×