Erlent

Erdoğan hótaði að hálshöggva svikara í ræðum sínum í gær

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið.
Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið. AFP

Recap Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, styður enn dauðarefsingar fyrir þá sem tóku þátt í valdaránstilrauninni í Tyrklandi fyrir ári. Kom þetta fram í ræðum hans í gær en fjölmargir viðburðir voru haldnir víðs vegar í Tyrklandi til að minnast þess að ár var liðið frá misheppnaðri valdaránstilraun þar í landi. The Guardian greinir frá.

Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið.

Mikið var um trúarlega tilvísanir í ræðum hans. Athöfnin við þingið í gær byrjaði á upplestri úr Kóraninum en rík áhersla var á textabrot um svik, píslarvætti og mikilvægi þess að standa upp í hárinu á óvinum sínum. Sagði hann að skipuleggjendur valdaránstilraunarinnar væru trúleysingjar og nýtti hann einnig hvert tækifæri til að gagnrýna harðlega stjórnarandstöðuflokkana. Hann fór ekki fögrum orðum um meinta óvini Tyrklands:

„Öflugustu vopn landsins voru notuð miskunnarlaust af óvinum þjóðarinnar. Þjóðin okkar hafði einungis fánann og trúnna.“ 
Erdogan líkti valdaránstilrauninni við aðrar baráttur í sögu Tyrklands og þá sérstaklega sjálfstæðisbaráttu landsins.

Vilja dauðarefsingar
Þá benti hann enn einu sinni á að möguleiki væri að taka aftur upp dauðarefsingar en hluti mannfjöldans hrópaði í hvívetna: „Við viljum dauðarefsingar“.

Forsetinn hefur áður sagt að hann myndi samþykkja löggjöf um að taka upp dauðarefsingar ef þingið myndi leggja fram frumvarp þess efnis.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varaði við því í grein sem birtist í blaðinu „Bild am Sonntag" á sunnudaginn fyrir viku að ef Tyrklandi myndi taka upp dauðarefsingar myndi það loka á aðildarviðræður Tyrklands við Evrópusambandið. Talaði hann einnig um að Tyrkland þyrfti að færa sig nær evrópskum gildum, ekki fjær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira