Erlent

Erdoğan hótaði að hálshöggva svikara í ræðum sínum í gær

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið.
Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið. AFP

Recap Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, styður enn dauðarefsingar fyrir þá sem tóku þátt í valdaránstilrauninni í Tyrklandi fyrir ári. Kom þetta fram í ræðum hans í gær en fjölmargir viðburðir voru haldnir víðs vegar í Tyrklandi til að minnast þess að ár var liðið frá misheppnaðri valdaránstilraun þar í landi. The Guardian greinir frá.

Tugþúsundir komu saman í Istanbúl fyrir fyrstu ræðu forsetans sem hann hélt á Bosphorus brúnni. Önnur ræða hans var haldin í Ankara við þinghúsið.

Mikið var um trúarlega tilvísanir í ræðum hans. Athöfnin við þingið í gær byrjaði á upplestri úr Kóraninum en rík áhersla var á textabrot um svik, píslarvætti og mikilvægi þess að standa upp í hárinu á óvinum sínum. Sagði hann að skipuleggjendur valdaránstilraunarinnar væru trúleysingjar og nýtti hann einnig hvert tækifæri til að gagnrýna harðlega stjórnarandstöðuflokkana. Hann fór ekki fögrum orðum um meinta óvini Tyrklands:

„Öflugustu vopn landsins voru notuð miskunnarlaust af óvinum þjóðarinnar. Þjóðin okkar hafði einungis fánann og trúnna.“ 
Erdogan líkti valdaránstilrauninni við aðrar baráttur í sögu Tyrklands og þá sérstaklega sjálfstæðisbaráttu landsins.

Vilja dauðarefsingar
Þá benti hann enn einu sinni á að möguleiki væri að taka aftur upp dauðarefsingar en hluti mannfjöldans hrópaði í hvívetna: „Við viljum dauðarefsingar“.

Forsetinn hefur áður sagt að hann myndi samþykkja löggjöf um að taka upp dauðarefsingar ef þingið myndi leggja fram frumvarp þess efnis.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, varaði við því í grein sem birtist í blaðinu „Bild am Sonntag" á sunnudaginn fyrir viku að ef Tyrklandi myndi taka upp dauðarefsingar myndi það loka á aðildarviðræður Tyrklands við Evrópusambandið. Talaði hann einnig um að Tyrkland þyrfti að færa sig nær evrópskum gildum, ekki fjær.
Fleiri fréttir

Sjá meira