Erlent

Bjóða nágrönnum sínum til viðræðna

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn standa vörð sunnanmegin við landamærin í Panmunjom.
Hermenn standa vörð sunnanmegin við landamærin í Panmunjom. Vísir/Getty

Stjórnvöld Suður-Kóreu stungu í dag upp á hernaðarviðræðum við nágranna sína í norðri til þess að draga úr spennu á Kóreuskaganum. Þetta er í fyrsta sinn sem ný ríkisstjórn Moon Jae-in stingur upp á viðræðum sem eiga að gerast seinna í vikunni. Stjórnvöld Norður-Kóreu hafa þó ekki svarað enn.

Tæknilega séð ríkir enn stríðsástand á Kóreuskaganum eftir að samið var um vopnahlé árið 1953.

Moon kom til valda í maí og hefur hann heitið því að koma af stað viðræðum á milli ríkjanna og í senn stöðva kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir Norður-Kóreu.

Yfirvöld Norður-Kóreu segja að tilraunaskot með langdræga eldflaug í byrjun mánaðarins hafi heppnast og að þeir hafi náð tökum á tækninni til að koma kjarnorkuvopnum fyrir á slíkum eldflaugum. Yfirvöld í Suður-Kóreu og Bandaríkjunum draga það þó í efa.

Lagt er til að viðræðurnar fari fram þann 21. júlí í Panmunjom friðarþorpinu. Síðustu viðræður sem haldnar voru þar fóru fram í desember 2015.

Sameiningaráðherra Suður-Kóreu, Cho Myoung-gyon sagði frá tilboðinu á blaðamannafundi í dag. Hann kallaði einnig eftir því að sérstakar símalínur á milli stjórnvalda og hernaðaryfirvalda ríkjanna beggja verðu virkjaðar aftur. Norður-Kórea lokaði á þær í fyrra eftir að Suður-Kórea beitti þá þvingunum vegna sprengingar kjarnorkuvopns.

Sömuleiðis lagði Suður-Kórea til viðræður um að fjölskyldum, sem sundruðust í Kóreustríðinu, verði gert kleyft að koma saman aftur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira