Erlent

Segja Brexit samninganefndina karlaklúbb

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þingkonurnar segja baráttu fyrir kvenréttindum aðeins í orði en ekki á borði hjá Theresu May.
Þingkonurnar segja baráttu fyrir kvenréttindum aðeins í orði en ekki á borði hjá Theresu May. Visir/API
Fimmtíu og sex þingkonur skrifuðu undir áskorun til forsætisráðherra Bretlands, Theresu May, þess efnis að endurskoða kynjahlutfallið í bresku samninganefndinni sem falið er að leiða Bretland úr Evrópusambandinu. Segja þingkonurnar að samninganefndin sé eins og hver annar karlaklúbbur að því er fram kemur á vef The Guardian.

Aðeins ein kona, Catherine Webb, er í tíu manna samninganefnd sem er falið þetta stóra verkefni fyrir Bretlands hönd.

Þingkonurnar segja að útgönguferlið komi til með að hafa gífurleg áhrif á þjóðina og jafnframt að það séu nokkur málefni sem varði konur sérstaklega og þess vegna sé núverandi kynjahlutfall þeim mikið áhyggjuefni.

„Það vantar kvenkynsraddir inn í samningaviðræðurnar, bæði hvað varðar hefðbundin mál eins og efnahagsmál og til að finna út hvernig við viðhöldum réttindum á vinnustað – sem að mestu eru tryggð í löggjöf Evrópusambandsins. Skert réttindi verkalýðs myndu koma verst niður á konum, allt frá fæðingarorlofi til mismununar á vinnustað,“ segja þingkonurnar í opnu bréfi til forsætisráðherrans.

Seema Malhotra, ein kvennanna, sagði að May héldi því fram að kvenréttindi væru henni kappsmál en þess sæist ekki stað í verki í hennar ráðherratíð. Hún segir jafnframt að það sé sláandi að forsætisráðherra hafi gefið grænt ljós á samninganefnd með jafn lítilli þátttöku kvenna og var á þingi fyrir tuttugu og fimm árum. Hún segir það vera á könnu ríkisstjórnarinnar að ryðja brautina og allra síst ætti hún að færa okkur aftur á við í tíma.

Þingkonurnar beina spjótum sínum að Theresu May og vilja að hún endurskoði kynjahlutfall bresku samninganefndarinnar.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×