Viðskipti innlent

Tekjur Íslendinga: Davíð enn langtekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins. Vísir/Anton
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, var tekjuhæsti fjölmiðlamaðurinn í Íslandi í fyrra, enn og aftur. Þetta kemur fram í Tekjublaði Frjálsar verslunar sem kom út í morgun. Samkvæmt því var Davíð með 3,93 milljónir króna á mánuði í fyrra.

Í öðru sæti á listanum er svo Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs, sem meðal annars gefur út Morgunblaðið. Hann var með 2,6 milljónir króna á mánuði.

Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Vefpressunnar og DV, er í því þriðja með 2,4 milljónir og Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri 365, í því fjórða með 1,46 milljónir. Ómar R. Valdimarsson, fréttamaður Bloomberg, er svo í því fimmta með 1,432 milljónir.

Í sjötta sæti er Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV, með 1,431 milljónir og Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður 365, er á eftir henni með 1,39 milljónir. Kristján Kristjánsson, umsjónarmaður Sprengisands er í áttunda sæti með 1,37 milljónir og Egill Óskar Helgason, dagskrárgerðarmaður RÚV, í því níunda með 1,32 milljónir.

Ragnhildur Sverrisdóttir, kynningarfulltrúi Björgólf Thors, er í tíunda sæti með 1,29 milljónir króna á mánuði.

Vert er að taka fram að könnun Frjálsar verslunar byggir á útsvari eins og það birtist í álagningarskrám. Í einhverjum tilvikum kann að vera að skattstjóri hafi áætlað tekjur. Þá þurfa tölurnar ekki að endurspegla föst laun í fyrra þar sem allar tekjur ákvarða útsvar. Þær gætu verið fyrir setu í nefndum, önnur aukastörf og vegna kaupréttarsamninga. Jafnvel hafa margir tekið út séreignarsparnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×