Erlent

Flugferðum aflýst í Phoenix vegna hita

Kjartan Kjartansson skrifar
Hiti hefur áhrif á getu flugvéla til að komast á flug. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Hiti hefur áhrif á getu flugvéla til að komast á flug. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. Vísir/EPA
Bandarísk flugfélög hafa aflýst flugferðum frá Phoenix í Arizona-ríki vegna þess að hitastigið er of hátt fyrir flugvélar þeirra. Spáð er allt að 49°C í borginni í dag.

Yfir fjörutíu flugferðum yfir heitasta tíma dagsins hefur verið aflýst samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Flestar þeirra eru innanlandsferðir sem eru farnar á smærri Bombardier-vélum. Þær þola mest 48°C.

Hitinn hefur áhrif á flugvélarnar þannig að hann þynnir loftið. Minni þéttleiki loftsins dregur úr lyftikraftinum sem vængir flugvélanna mynda og þá þarf meira afl úr hreyflunum til að koma þeim á loft.

BBC vitnar meðal annars í skýrslu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar frá því í fyrra þar sem varað var við því að hækkandi hitastig af völdum loftslagsbreytinga gæti haft veruleg áhrif á flugvélar.

Á sumum flugvöllum í Mið-Austurlöndum og í Suður-Ameríku þar sem loftið er þunnt vegna hæðar eru lengri flugferðir farnar á kvöldin eða næturnar þegar svalara er í lofti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×