Viðskipti innlent

Vilja herða aðgerðir gegn kennitöluflakki

Sæunn Gísladóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, kynntu sameiginlegar tillögur SA og ASÍ í dag.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, kynntu sameiginlegar tillögur SA og ASÍ í dag. Mynd/SA
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands kynntu í dag sameiginlegar tillögur sem er ætlað að berjast gegn kennitöluflakki. Ætla má að tjón samfélagsins vegna kennitöluflakks hlaupi á milljörðum króna á hverju ári segir í tilkynningu.

Kennitöluflakk er að mati SA og ASÍ meinsemd í íslensku samfélagi sem er hægt að lágmarka með breytingu laga í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum. Félögin leggja til að hægt verði að banna þeim sem verða uppvísir að kennitöluflakki að eiga og reka hlutafélög og einkahlutafélög í allt að þrjú ár.

Kennitöluflakk felur í sér að félag hættir starfsemi eftir gjaldþrot en rekstur þess heldur áfram í gegnum annað félag með nýrri kennitölu til að komast undan einhverjum eða öllum lagalegum skuldbindingum félagsins, sem sagt greiðslu skatta og opinberra gjalda, lífeyris- og launagreiðslum.

Lagt er til að Ríkisskattstjóra verði veitt heimild til að úrskurða kennitöluflakkara í svokallað atvinnurekstrarbann að fengnum úrskurði dómstóla. Bannið myndi ekki einungis ná til skráðra stjórnenda heldur einnig til svokallaðra skuggastjórnanda. Skilyrði atvinnurekstrarbanns eru óverjandi viðskiptahættir eða rökstuddur grunur um refsiverðan verknað í tengslum við atvinnurekstur.

Það er til mikils að vinna en að mati félaganna liggur fyrir að fjárfesting í baráttu gegn kennitöluflakki skilar sér margalt til baka. Tjónið lendir á fyrirtækjum, ríkissjóði, stéttarfélögum, lífeyrissjóðum, launafólki og neytendum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×