Innlent

Áfengisneysla hér á landi aukist um tugi prósenta síðan 1980

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Áfengisneysla hér á landi hefur aukist nokkuð mikið á seinustu áratugum en líklegt má telja að fjöldi ferðamanna spili inn í.
Áfengisneysla hér á landi hefur aukist nokkuð mikið á seinustu áratugum en líklegt má telja að fjöldi ferðamanna spili inn í. vísir/ernir
Áfengisneysla hefur aukist um 73 prósent hér á landi milli áranna 1980 og 2016 en tölurnar eru byggðar á áfengissölu hérlendis.

Að því er fram kemur á vef Hagstofunnar var neyslan 2.015 þúsund alkóhóllítrar í fyrra samanborið við rúmlega 1.324 þúsund lítra árið 2000 og 716 þúsund lítra árið 1980. Sé mælt í hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri var neyslan 7,50 lítrar árið 2016, 6,14 árið 2000 og 4,33 lítrar árið 1980. Áfengisneysla hefur þar af leiðandi aukist um 73 prósent milli áranna 1980 og 2016 sé horft til alkóhóllítra á 15 ára og eldri.

„Áfengisneysla fór hægt vaxandi á árunum 1980–1988 en jókst umtalsvert árið1989 þegar sala bjórs var heimiluð hér á landi. Dró síðan úr henni en frá árinu 1994 fór hún stigvaxandi fram til ársins 2007 þegar hún varð hvað mest.

Í kjölfarið minnkaði áfengisneysla aftur í nokkur ár en jókst á ný og var mest árið 2015, 7,66 alkóhóllítrar á íbúa 15 ára og eldri. Ætla má að fjölgun ferðamanna til landsins á síðustu árum eigi sinn þátt í þeirri aukningu sem orðið hefur á sölu áfengis undanfarið.

Mælt í hreinum vínanda á íbúa 15 ára og eldri var neysla bjórs 4,24 lítrar árið 2016, neysla léttra vína 2,09 lítrar og neysla sterkra drykkja 1,16 lítrar,“ segir á vef Hagstofunnar en nánar má lesa um málið þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×