Erlent

Erkibiskupinn vill þverpólitískt samstarf í Brexit-málinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Erkibiskupinn af Kantaraborg varar við því að nýta sér sundrungina í pólitískum tilgangi. Hann segir brýnt að fólk starfi saman.
Erkibiskupinn af Kantaraborg varar við því að nýta sér sundrungina í pólitískum tilgangi. Hann segir brýnt að fólk starfi saman. Vísir/Getty
Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg, kallar eftir þverpólitískri nefnd til að leiða þjóðina úr Evrópusambandinu. Hann vonast til þess að þverpólitískt samstarf muni „taka mesta eitrið úr umræðunni,“ segir erkibiskupinn í umfjöllun sinni um þær pólitísku skotgrafir sem hafa einkennt umræðuna um Brexit. The Guardian greinir frá.

Hann vill stuðla að friði í samfélaginu og sameina bresku þjóðina, ólíka samfélags-og trúarhópa og byggja brýr milli kynslóða.

Welby segir að í ljósi þeirra hræðilegu atburða sem hafa átt sér stað á Bretlandi undanfarna mánuði verði að komast á sættir á meðal breskra borgara. Breska þjóðin hefur gengið í gegnum mikla erfiðleika á skömmum tíma og ber þá helst að nefna hryðjuverkaárásir og eldsvoðann í Grenfell-turninum.

Erkibiskupinn sagði ákvörðunina um að ganga úr Evrópusambandinu hafa sundrað þjóðinni en bendir jafnframt á að það geti haft alvarlegar afleiðingar að nýta sér sundrungina í pólitískum tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×