Viðskipti innlent

Engin tilboð bárust í eignir Háskólans á Bifröst

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hótelið og fasteignirnar sem eru til sölu eru í eigu Háskólans á Bifröst.
Hótelið og fasteignirnar sem eru til sölu eru í eigu Háskólans á Bifröst. vísir/pjetur
Ekki bárust tilboð í Hótel Bifröst eða aðrar fasteignir Háskólans á Bifröst sem boðnar voru til sölu í vor. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru þó einhverjar þreifingar í gangi um möguleg kaup á eignunum, en ekki er talið að málin skýrist fyrr en í næstu eða þarnæstu viku.

Tilkynnt var um áform háskólans um að selja eignirnar, ásamt rekstri hótelsins, í apríl síðastliðnum. Hótelið hefur verið í rekstri frá árinu 2013 og tilheyrir því 51 herbergi auk veitingasalar í rekstri. Auk þess voru sett á sölu tvö fjölbýlishús með 48 íbúðum sem nýst geta undir hótelrekstur og þá bauðst fjárfestum einnig til kaups fjölbýlishús með möguleika á frekari stækkun, alls 88 herbergi. Ráðgjöfum Capacent var falið að annast söluna.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst
Í boði var að kaupa eignirnar, sem og rekstur hótelsins, að hluta eða öllu leyti og voru þær verðmetnar á bilinu 1,5 til 2,5 milljarðar króna. Í tilkynningu frá skólanum á sínum tíma kom fram að eignirnar hefðu verið settar á sölu til að bregðast við fækkun sem hafði orðið í staðnámi hjá skólanum. Ekki væri lengur sama þörf og áður fyrir húsnæði á svæðinu. Um áttatíu prósent af nemendum skólans eru í fjarnámi.

Auk þess hefur skólinn glímt við fjárhagserfiðleika undanfarin ár og er sölunni á eignunum þannig ætlað að bæta fjárhagsstöðuna og gera skólanum kleift að greiða niður skuldir. Alls varð 55 milljóna króna tap af rekstri skólans árið 2015 og var eigið fé þá neikvætt um 155 milljónir. Unnið hefur verið að endurskipulagningu rekstrarins síðustu ár. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×