Erlent

G20: Löggur sendar heim eftir að hafa drukkið, dansað, pissað og stundað kynlíf í partíi

Atli Ísleifsson skrifar
Partístandið virðist hafa hafist skömmu eftir að um fimm hundruð lögreglumenn frá Berlín mættu í skammtímahúsnæði sitt nærri Bad Segeberg.
Partístandið virðist hafa hafist skömmu eftir að um fimm hundruð lögreglumenn frá Berlín mættu í skammtímahúsnæði sitt nærri Bad Segeberg. Vísir/EPA
Rúmlega tvö hundruð þýskir lögreglumenn, sem áttu að sinna öryggisgæslu í tengslum við leiðtogafund G20-ríkja í Hamborg í næstu viku, hafa verið sendir aftur til síns heima með skömm.

Ástæðan er að það sást til lögreglumannanna í partíi í og fyrir utan húsnæði þeirra þar sem einhverjir stunduðu kynlíf utandyra og aðrir hópuðust að girðingu og pissuðu á hana.

Lögreglan í Berlín birti í morgun yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni undir fyrirsögninni: „Partílöggurnar í Berlín?“ og mynd með textanum „Mannleg“. Kemur þar fram að aðrir lögreglumenn verði sendir í stað þeirra sem brutu af sér og sendir aftur til Berlínar.

Skammarlegt

Thomas Neuendorf, talsmaður Berlínarlögreglunnar, segir það skammarlegt hvernig samstarfsmenn sínir hafi hagað sér. Partístandið virðist hafa hafist skömmu eftir að um fimm hundruð lögreglumenn frá Berlín mættu í skammtímahúsnæði þeirra nærri Bad Segeberg, norður af Hamborg, á sunnudag.

Þýska blaðið BZ greinir frá því að tugir lögreglumanna hafi skemmt sér langt fram á nótt þar sem tveir lögreglumenn hafi stundað kynlíf við girðingu, lögreglumenn hafi pissað á girðingu og lögreglukona í slopp hafa dansað uppi á borði og veifað vopni sínu.

Búist er við miklum mótmælum í tengslum við fund G20-ríkjanna sem stendur yfir dagana 7. og 8. júlí. Alls er búist við að um 20 þúsund lögreglumenn verði þar að störfum og sá lögreglan í Berlín um að útvega um þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×