Viðskipti innlent

Hafna norsku leiðinni

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur að takmörkun á lánshlutfalli af hálfu stjórnvalda geti komið í veg fyrir frekari ofhitnun íbúðamarkaðarins.
Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur að takmörkun á lánshlutfalli af hálfu stjórnvalda geti komið í veg fyrir frekari ofhitnun íbúðamarkaðarins. Vísir/Anton Brink
Ólíklegt er að skert aðgengi að lánsfé geti slegið á hækkun íbúðaverðs hér á landi. Verðhækkanir á markaðinum hafa enda ekki verið drifnar áfram af skuldsetningu, heldur skorti á íbúðum. Þetta er mat hagfræðinga sem Fréttablaðið ræddi við.

Hagdeild Íbúðalánasjóðs benti í lok síðasta mánaðar á að verulega hefði dregið úr verðhækkunum í Noregi eftir að þarlend stjórnvöld lækkuðu lánshlutfall á íbúða­lánum vegna kaupa á annarri íbúð. Var vísað til „norsku leiðarinnar“ í þessu sambandi. Telur hagdeildin að reynsla Norðmanna sýni að aukin eiginfjárkrafa til þeirra sem eiga fleiri en eina fasteign geti borið árangur á svæðum þar sem framboðsskortur ríkir.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, bendir á að staðan á norskum fasteignamarkaði sé allt önnur en hér á landi. „Skuldsetning norskra heimila er mjög mikil og í raun farin að ógna fjármálalegum stöðugleika í landinu. Hér er staðan önnur, þar sem verðhækkanir hafa ekki verið drifnar áfram af aukinni skuldsetningu. Fremur hafa heimili verið að greiða niður skuldir.“

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.Mynd/SA
Ástæðan fyrir hækkandi fasteignaverði sé fyrst og fremst sú að ekki hafi verið byggt nægilega mikið til að mæta lýðfræðilegri þörf. „Það er annar og mun alvarlegri vandi en að Íslendingar séu að kaupa fleiri en eina fasteign,“ segir Ásdís.

„Ef stjórnvöld ætla að grípa til svona íþyngjandi aðgerða þarf að liggja fyrir mjög góður rökstuðningur. Hvað eru margir sem eiga tvær eða fleiri eignir? Er það algengt? Þessi tölfræði þyrfti að liggja fyrir. Mér finnst það ekki alveg gefið.“

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá Reykjavík Economics, segir erfitt fyrir stjórnvöld að beita stýritækjum sem þessum þegar eins mikill skortur er á íbúðum á viðráðanlegu verði og raunin er nú. Alls óvíst sé hvort þau virki sem skyldi við slíkar aðstæður. Í nýlegri skýrslu Reykjavík Economics um íbúðamarkaðinn er bent á að Seðlabanki Íslands geti vissulega haft áhrif á verðþróun á markaðinum með beitingu stýritækja. Stjórnvöld verði að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Æskilegra væri ef lánastofnanir sýndu frumkvæði í að sjálfregluvæða starfsemi sína.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir reyndina væntanlega þá að ekki séu að jafnaði fleiri en eitt íbúðalán á mann eða fjölskyldu, að minnsta kosti hjá sömu fjármálastofnun. „Ef menn eru að sanka að sér íbúðum má ætla að þeir hafi félag um slíkt og séu því komnir út í atvinnurekstur. Venjuleg íbúðalán eru ekki í boði fyrir félög. Án þess að ég þekki það finnst mér því mjög líklegt að fjármagnskostnaður við öflun fleiri en einnar íbúðar sé orðinn mun meiri en við öflun fyrstu íbúðar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×