Erlent

Eyjaskeggjar í Púertó Ríkó ganga til kosninga

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ricardo Rosselló Landstjóri Púertó Ríkó talar fyrir ríkisstöðu.
Ricardo Rosselló Landstjóri Púertó Ríkó talar fyrir ríkisstöðu. Vísir/getty
Kosningadagur er runninn upp í Púerto Ríkó en eyjaskeggjar kjósa í dag um samband sitt við Bandaríkin. Kosið verður um það hvort íbúar vilji gera Púertó Ríkó að 51. fylki Bandaríkjanna, með þeim réttindum og skyldum sem slík staða felur í sér. Annar valkostur sem boðið er upp á er óbreytt ástand sem felur í sér að vera sérstakt sambandssvæði Bandaríkjanna. Þriðji og síðasti valmöguleikinn er algert sjálfstæði.

Stjórnvöld í Púertó Ríkó kölluðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni í ljósi efnahagsvandræða eyjunnar. Er þetta í fimmta skipti sem íbúarnir kjósa um sama efni á fimmtíu ára skeiði og var síðast kosið árið 2012. Atkvæðagreiðslan í dag er ekki bindandi því ákvörðunin er ekki í höndum Púertó Ríkó. Bandaríkjaþing hefur lokaorðið en afar ólíklegt þykir að Bandríkin veiti Púertó Ríkó ríkisstöðu.

Landstjóri berst fyrir ríkisstöðu

Í samtali við The Guardian segir Ricardo Rosselló, landstjóri Púertó Ríkó, það vera vansæmandi fyrir Bandaríkin að eiga yfir að ráða eins konar nýlendusvæði á 21. öldinni. Þá sé núverandi staða líka skammarleg fyrir íbúa Púertó Ríkó. Rosselló er eindreginn stuðningsmaður þess að Bandaríkin fullgildi Púertó Ríkó sem 51. fylkið. Landstjórinn hefur farið mikinn á samskiptaforritinu Twitter og birtir hann tíst undir myllumerkinu „Estadidad“ eða „ríkisstaða“ á íslensku.

Spurður að því hvort honum þyki raunhæft að Bandaríkin, með Donald Trump í broddi fylkingar, veiti þeim ríkisstöðu segist Rosselló ekki vita til þess að Bandaríkjaforseti sé andvígur fólki frá Rómönsku Ameríku þó svo að hann hafi að sjálfsögðu heyrt lítillækkandi ummæli. Segist hann ekki þekkja forsetann persónulega og að ummæli hans aftri sér ekki í baráttunni.

„Ef við sýnum fram á það að íbúar Púertó Ríkó vilji verða fylki Bandaríkjanna og að þeir hafni nýlendustöðu sinni verður þjóðin, sem segist tala fyrir lýðræði, að gera eitthvað í málunum,“ segir Rosselló.

Greiðsluþrot Púertó Ríkó

Kosningarnar eru haldnar í skugga efnahagserfiðleika eyjunnar en 3. maí, síðastliðinn, var tilkynnt um sögulega enduskipulagningu á skuldum ríkisins. Um er að ræða stærsta gjaldþrot í sögu bandaríska markaðarins með bréf ríkja og sveitarfélaga en sá markaður telur 3800 milljarða bandaríkjadala. Enn er óljóst hve mikið af um 72 milljarða dala skuldum Púertó Ríkó eru inni í greiðsluþrotinu en ljóst er að greiðsluþrot Detroit-borgar árið 2013 er smátt í samanburði.

Tilkynningin barst eftir að nokkrir aðalkröfuhafar Púertó Ríkó stefndu eyríkinu vegna vanskila á skuldabréfum þess. Óhætt er að segja að mikil óvissa ríki um framtíð eyjarinnar en greiðsluþrotið gæti leitt til skerðingar á lífeyrisgreiðslum og atvinnutryggingum íbúanna sem og samdráttar til heilsugæslu og menntakerfis. Samdráttur hefur verið í efnahag eyjarinnar í nærri áratug og um 45 prósent íbúa lifa í fátækt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×