Enski boltinn

Valinn bestur á HM og spilar með Liverpool á næstu leiktíð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominic Solanke með Gullboltann.
Dominic Solanke með Gullboltann. Vísir/Getty
Dominic Solanke varð í dag heimsmeistari með 20 ára landsliði Englendinga en hann fékk líka Gullboltann sem besti leikmaður keppninnar.

Englendingar unnu þá sinn fyrsta heimsmeistaratitil sinn í 51 ár eða síðan að karlalandsliði vann HM á heimavelli 1966. Enska 20 ára landsliðið hafði aldrei áður komist í úrslitaleikinn á HM U20.

Enska liðið treysti mikið á  frammistöðu Dominic Solanke í sóknarleiknum og Englendingar eiga honum mikið að þakka að ensku liðið komust alla leið í úrslitaleikinn. Frammistaða hans í útsláttarkeppninni átti líka mestan þátt í því að hann var kosinn besti leikmaður keppninnar.

Dominic Solanke fékk Gullboltann, Úrúgvæmaðurinn Federico Valverde fékk silfurboltann og Yangel Herrera frá Venesúela fékk bronsboltann. Enski markvörðurinn Freddie Woodman var valinn besti markvörður keppninnar en Riccardo Orsolini Ítalinn fékk gullskóinn.

Þessi verðlaun hafa margir frábærir leikmenn fengið menn eins og Diego Maradona (1979), Lionel Messi (2005), Sergio Aguero (2007) og Paul Pogba (2013). Það er því engin pressa á Solanke.

Solanke er á leiðinni til Liverpool en hann ákvað á dögunum að yfirgefa Chelsea og semja frekar við Liverpool. Liverpool mun aðeins þurfa að reiða um þrjár milljónir punda fyrir strákinn sem þykir ekki mikið eftir þessa frammistöðu hans á HM í Suður-Kóreu.

Solanke náði ekki að skora í úrslitaleiknum á móti Venesúela og missti því að Gullskónum. Hann var búinn að skora þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum enska liðsins, eitt mark á móti Mexíkó í átta liða úrslitunum og tvö mörk á móti Ítalíu í undanúrslitunum. Solanke skoraði alls fjögur mörk í sjö leikjum í keppninni

Solanke náði ekki að spila með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni en hann var meðal annars lánaður til hollenska liðsins Vitesse þar sem hann skoraði 7 mörk í 25 deildarleikjum tímabilið 2015-16.

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, setti Solanke í frystikistuna í vetur þegar ljóst var að leikmaðurinn ætlaði ekki að endurnýja samning sinn.  Solanke valdi að fara til Liverpool þegar samningur hans rann út og Liverpool þarf væntanlega bara að greiða Chelsea  „smáaura“ fyrir hann ef við tökum mið af öðrum kaupum og sölum í fótboltanum í dag.

Dominic Solanke með bikarinn.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Everton-maður tryggði Englandi fyrsta HM-titilinn frá 1966

Enska tuttugu ára landsliðið í fótbolta tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í U20 eftir 1-0 sigur á Venesúela í úrslitaleik heimsmeistaramótsins sem fór fram í Suður-Kóreu. Sumarið 2017 ætlar að verða miklu betra en sumarið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×