Viðskipti innlent

Gæti tekið vikur að fylla Costco

Haraldur Guðmundsson skrifar
Vöruúrval í Costco hefur minnkað síðustu vikur en enn er nóg til af Diet Pepsi.
Vöruúrval í Costco hefur minnkað síðustu vikur en enn er nóg til af Diet Pepsi. Vísir/Eyþór
„Það mun gerast á næstu dögum eða vikum,“ segir Brett Vigelskas, verslunarstjóri Costco á Íslandi, aðspurður hvenær vöruúrval verslunarinnar í Kauptúni í Garðabæ verði aftur jafn mikið og það var fyrstu vikur eftir opnun. Brett segir fyrirtækið hafa tekið á móti gámum með vörum í vikunni og að von sé á fleiri sendingum á næstunni.

„Við erum nú að taka á móti miklu af vörum og þá sérstaklega síðustu tvær nætur [aðfaranótt fimmtudags og föstudags]. Svo er miklu meira á leiðinni,“ sagði Brett áður en hann sagðist vera upptekinn allan daginn í gær og kvaddi blaðamann.

Þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði á fimmtudag voru fjölmargar hillur verslunarinnar tómar og ljóst að í mörgum vöruflokkum mátti finna færri vörutegundir en þegar verslunin var opnuð þann 23. maí. Sem dæmi má nefna að gostegundum og hreinlætisvörum á borð við klósettpappír hefur fækkað talsvert.

Brett Vigelskas, verslunarstjóri Costco á Íslandi.
Brett hefur bent á að eftirspurnin eftir vörum Costco hafi farið fram úr björtustu vonum og að búðir bandaríska verslunarrisans verði ekki jafn tómlegar undir venjulegum kringumstæðum. Eins og Fréttablaðið greindi frá í byrjun júní eru vísbendingar um að velta í Costco hafi verið meiri en velta Bónuss fyrstu daga eftir opnun verslunarinnar í Kauptúni. Samkvæmt upplýsingum sem byggja á kortaveltu var sala Costco á þeim tíma 32 prósent af heildarveltunni á dagvörumarkaði en markaðshlutdeild Bónuss var 28 prósent. Síðarnefnda fyrirtækið rekur 32 verslanir um allt land og þar af 20 á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt nýrri könnun MMR, sem framkvæmd var dagana 6. til 14. júní, hafa rúm 43 prósent Íslendinga farið í Costco. Um 95 prósent Sjálfstæðismanna hafa annaðhvort heimsótt verslunina eða hyggjast gera það við tækifæri. Þá eru þeir yngri og þeir sem búa á tekjuhærri heimilum líklegri en aðrir til að hafa heimsótt verslunina. Heldur fleiri konur en karlar höfðu farið í Costco og var hlutfallið 47 prósent hjá konum á móti 40 hjá hinu kyninu. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×