Skoðun

Að bjarga mömmu og pabba frá stafrænum móðurmálsdauða

Anton Karl Ingason skrifar
Íslendingar eru smám saman að átta sig á því að alþjóðleg framþróun í máltækni á að óbreyttu eftir að grafa undan stöðu íslenskunnar í daglegu lífi á næstu árum. Líklegt er að íslenska víki fyrir ensku í fjölmörgum hversdagslegum aðstæðum sem einkennast af nánu sambandi milli tölvutækni og mannlegs máls. Markmiðið með þessum pistli er að vekja athygli á því að máltækni er ekki síst málefni eldri borgara og benda á hvernig ungt fólk getur látið að sér kveða til að bregðast við vandanum.

Hvers vegna er íslensk máltækni málefni eldri borgara?

Þegar ný tækni nær mikilli útbreiðslu er vanalegt að yngri kynslóðir aðlagist henni fyrst. Þegar nýtt app á borð við Snapchat eða WhatsApp slær í gegn eru það ekki eldri borgarar sem eru fyrstir til að tileinka sér nýjungarnar. Svipað mun eflaust eiga við um vöxt máltækni á næstu árum, en kynslóða­munur gæti orðið enn afdráttarlausari á þessu sviði vegna þess að máltækni snýst um mannlegt mál og hæfni til að fara út fyrir þægindaramma móðurmálsins er líka tengd yngri kynslóðum. Ef máltækni á Íslandi verður fyrst og fremst innflutt ensk máltækni mun eldri borgari framtíðarinnar þurfa að tileinka sér nýstárlega tækni á talaðri ensku til að hafa aðgang að ýmiss konar hversdagslegri þjónustu. Sumir munu gera það en aðstæðurnar gætu orðið óþægilegar fyrir aðra og jafnvel útilokandi. Jafnvel þó að fólk geti bjargað sér á ensku við einhverjar aðstæður getur því þótt annarlegt og kvíðvænlegt að móðurmálið deyi á tilteknum sviðum daglegs lífs og við taki enskumælandi vélmenni.

Afgreiðsla á skyndibitastað er starfsgrein sem mun trúlega hverfa á næstu 10-20 árum vegna þess að ódýr sjálfvirkni á örugglega eftir að ráða við það að taka niður pöntun á samloku og afgreiða hana. Máltækni verður án efa vanalegur þáttur í slíkri starfsemi. Viðskiptavinir munu geta lýst því í töluðu máli hvort þeir vilji papriku, jalapeno o.fl. með máltíðinni. Þó að það sé dýrt í upphafi að búa til máltæknilausn er ódýrt að nota hana og fyrirtæki sem reka samlokustaði munu örugglega hafa áhuga á að geta boðið upp á sömu þjónustu og áður án launakostnaðar. Án íslenskrar máltækni munu viðkomandi fyrirtæki þurfa að velja á milli þess að ráða íslenskumælandi afgreiðslufólk eða nota enska máltækni og skila meiri hagnaði. Slíkar ákvarðanir mun þurfa að taka víða og hagnaðarsjónarmið munu örugglega vega þungt í a.m.k. sumum tilvikum.

Hvernig er hægt að bjarga pabba og mömmu?

Ef þig grunar að foreldrar þínir muni ekki leggja í eða ráða við að tala við samlokuvélmenni á ensku í framtíðinni en vilt stuðla að því að þeir geti keypt sér skyndibita og nýtt sér hvers kyns aðra þjónustu sem mun reiða sig á máltækni innan skamms þá er rétti tíminn núna til að láta að sér kveða.

Í fyrsta lagi er mikilvægt að halda áfram að byggja upp vitundarvakningu um að íslensk tunga þurfi máltækni til að geta lifað heilbrigðu lífi á næstu árum og áratugum. Það gerum við með því að taka þátt í umræðu um íslenska máltækni, hvort sem er á samfélagsmiðlum, í persónulegum samskiptum eða annars staðar.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að sum okkar taki beinan þátt í að byggja upp íslenska máltækni. Það er hægt að gera með því að afla sér sérfræðiþekkingar og hjálpa til við að þróa lausnir sem gera samlokuvélmennum kleift að tala íslensku. Þessu mætti fólk velta fyrir sér þegar það útskrifast úr framhaldsskóla. Háskólanám í íslenskri málfræði, tölvunarfræði eða skyldum greinum getur nefnilega verið góður kostur fyrir þá sem vilja bjarga mömmu og pabba frá stafrænum móðurmálsdauða.





Höfundur er lektor í íslenskri málfræði og máltækni við HÍ.

 




Skoðun

Sjá meira


×