Skoðun

Great Again

Úlfur Karlsson skrifar
Það eru ekki margir sem tengja Bandaríkin við fótbolta.

Það sem þessi þjóð kallar fótbolta er ekki einu sinni almennilegur fótbolti. Þetta er íþrótt sem á það eitt sameiginlegt með evrópskum fótbolta að nota uppblásna tuðru. Þó kemur í ljós þegar að er gáð að Bandaríkjamenn eiga sér langa knattspyrnusögu. Þetta vita ekki margir, ekki einu sinni þeir sjálfir. 

Fyrsti landsleikur Bandaríkjamanna var gegn nágrönnunum í norðri, Kanadamönnum, árið 1885 og fór leikurinn fram í New Jersey. Heimamenn töpuðu þeim leik en gátu ekki sætt sig við tapið og fóru fram á „re-match“ þar sem þeir náðu fram hefndum og sigruðu 1-0. Þetta lið var ekki handvalinn hópur bestu leikmanna Bandaríkjanna, því þessir frómu liðsmenn voru sóttir í Christian Brothers College High School. Næsti landsleikur fór svo fram árið 1916 gegn frændum okkar í Svíþjóð og var í Stokkhólmi. Þeir röndóttu unnu þann leik 3-2.

Bandaríkjamenn sendu líka lið á fyrsta heimsmeistaramótið sem haldið var í knattspyrnu árið 1930. Þeir byrjuðu mótið með látum, sigruðu belgíska liðið örugglega í fyrsta leiknum 3-0. Í kjölfarið fylgdi 2-0 sigur á sterku liði Paragvæ en í undanúrslitum voru þeir burstaðir rækilega þegar þeir töpuðu 6-1 gegn Argentínumönnum. Þessi árangur er enn þann dag í dag sá besti sem nokkurt lið Norður-Ameríku hefur náð. Jafnvel Mexíkó sem er mun meiri fótboltaþjóð hefur aldrei komist lengra enn í 8 liða úrslit og Kanadamenn hafa einungis einu sinni komist á heimeistaramótið. Þrátt fyrir þetta var lítið um dýrðir næstu árin hjá þeim röndóttu í fótboltanum. 

Á þessum áratugum gjörbreytist heimsmyndin, eftir tvær heimstyrjaldir voru Bandaríkin og Sovétríkin stórveldi sem notuðu hvert tækifæri til að metast um yfirburði sína. Kúbudeilan olli martröðum um gjörvalla heimsbyggðina, Sovétmenn viðruðu einstaka tónlistarsnilling í vestri og Jackson Pollock var sendur til Austur-Evrópu til að stimpla inn listræna yfirburði Bandaríkjamanna um leið og stórveldin kepptust við að senda fyrsta mannaða geimfarið til tunglsins.

Auðvitað var þetta nákvæmlega eins í fótboltanum og heimsmeistaramótið 1950 sem haldið var í Brasilíu var kærkomið tækifæri fyrir Bandaríkin til að sýna mátt sinn. Þó fór svo að þeim gekk ekkert sérstaklega vel á þessu móti og duttu úr keppninni strax í riðlinum en þeim tókst að sigra fótboltaveldið Breta og sigur yfir þessum fyrrum nýlenduherrum var sætur fyrir Bandaríkin. Leiknum, sem var klukkan þrjú í borginni Belís Horizontal, lauk nefnilega 1-0 með marki náunga að nafni Gaetjens. Þetta var ekki ósvipað því þegar Íslendingar fögnuðu að loknum tapleik við Frakka á EM síðasta sumar, sigrarnir á undan voru stærri en tap dagsins og þegar liðið kom heim aftur var leikmönnunum fagnað sem þjóðhetjum. 

Um þessa hetjudáð kananna var gerð kvikmynd árið 2005 sem heitir “ The Game of Their Lives”. Titill myndarinnar, er ekki alveg úr lausu lofti gripinn því flestir leikmanna liðsins komu úr lægri þrepum þjóðfélagsins, voru annað hvort innflytjendur eða börn innflytjenda, og margir af ítölskum ættum, það má því segja að þetta hafi verið mikilvægasti leikurinn í lífi þeirra . Aðalhetjan í sigrinum yfir Englendingum, Don Joe Gaetjens, var Haítímaður. Hann starfaði með fullu háskólanámi sem uppvaskari á veitingastað og spilaði við góðan orðstír með fótboltaliði staðarins, Brookhattan, enda náttúrbarn hvað fótboltann varðaði. Hann ku hafa verið hálfnaður með uppþvottinn daginn sem hann var sóttur á veitingastaðinn og sendur á HM í Brasilíu.

Eftir leikinn fræga flutti hann til Frakklands, og spilaði í fyrstu deild þar með Racing Club De Paris og var með í nokkrum leikjum fyrir upprunaland sitt Haítí.

En aftur að Bandaríkjunum. Fátt var að frétta á árunum 1960-1980 í Guðs eigin landi hvað varðaði fótboltann og hann nánast lognaðist út af. 

Árið 1989 kom upp sú hugmynd að Bandaríkin ættu að halda heimsmeistaramót karla árið 1994. Á þessum tíma voru Bandaríkin farin að dragast talsvert aftur úr nágrönnum sínum í suðri, Mexíkó hvað fórboltann varðaði og vissu fæstir neitt um þessa íþrótt. Árið 1993 voru spilaðir æfingaleikir við nokkrar þjóðir og síðan hófst undirbúningsmót fyrir HM, US Cup, þar sem Bandaríkjamenn unnu Englendinga í fyrsta leik 2-0 en töpuðu öðrum leikjum á mótinu. Þá var ráðinn til starfa nýr þjálfari, sá hét Bora Milutinovic og var eldri en tvævetur í bransanum. Öllu var til tjaldað og einn skrautlegasti karakter seinni ára í boltanum, Alexi Lalas, var sóttur. Þetta var rauðskeggjaður náungi með sítt rautt hár sem leit út eins og Amish þungarokkari og reyndar spilaði hann í rokkhljómsveit (frægasti smellur sveitarinnar hét „Kickin Balls“). 

Nú átti það að gerast. Bandaríkin voru orðin hluti af fótboltaheiminum og þetta var tækifærið til að rísa og gera stóra hluti. Í opnunarleiknum var boðið upp á drepleiðinlegt 1-1 jafntefli á móti Sviss en í næsta leik unnu þeir sterkt lið Kólumbíumanna sem margir höfðu spáð heimsmeistaratitli, þetta var leikurinn þar sem Andreas Escobar skoraði frægasta sjálfsmark knattspyrnusögunar. Og þrátt fyrir 1-0 tap gegn sterku liði Rúmena með George Hagi innanborðs komust Bandaríkin áfram í 16 liða úrslit. Þar lentu þeir á móti brasilíska liðinu sem skartaði Romario, Ronaldo (gamla) og Cafu og tókst að standa í einu sterkasta knattspyrnuliði heims en leikurinn endaði með 1-0 sigri Brasilíumanna .

Eftir þetta mót hafa Bandaríkin tekið þátt í flestum heimsmeistaramótum sem haldin hafa verið. Oftast er nokkuð hátt hlutfall innflytjenda í liðinu og oftast er þjálfarinn evrópskur. Enn bólar þó ekkert á virkilega stórum fótboltastjörnum þarna. Hvar er hinn bandaríski Ronaldo eða Messi? 

Vonarglæta kviknaði fyrir nokkrum árum þegar Freddy nokkur Adu, fæddur í Gana, virtist efnilegur og var honum barnungum komið á samning hjá portúgalska stórliðinu Benfica, en þar var hann í fjögur ár. Þetta voru þó tóm vonbrigði fyrir alla sem að málinu komu. Adu fékk fá tækifæri, stóð ekki undir væntingum, var lánaður út og suður og um tíma lék hann í finnsku úrvalsdeildinni. 

Það verður að segjast eins og er að saga bandarísks fótbolta er yfirleitt saga vonbrigða. Þar á bæ bíða men enn eftir að eignast stærstu stjörnuna og þá verða þeir auðvitað bestir í heimi. 

Það er sennilega það sem átt er við með „To make America Great Again“.




Skoðun

Sjá meira


×