Enski boltinn

Keown: Arsenal ætti að selja ofdekraða Özil og Sánchez

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sánchez og Özil skoruðu samtals 42 mörk í vetur.
Sánchez og Özil skoruðu samtals 42 mörk í vetur. vísir/getty
Martin Keown, fyrrverandi leikmaður Arsenal, segir að félagið eigi að selja Mesut Özil og Alexis Sánchez ef þeir skrifa ekki undir nýja samninga.

Özil og Sánchez hafa ekki enn framlengt samninga sína við Arsenal og óljóst er hvort þeir verði áfram á Emirates.

Keown segir að Özil og Sánchez hafi verið ofdekraðir í vetur og Arsenal verði að sýna að enginn leikmaður sé stærri en félagið.

„Stjórans bíða erfiðar ákvarðanir. Ég er viss um að báðir leikmennirnir vilji fara annað því þeir vilja spila í Meistaradeild Evrópu og vinna Englandsmeistaratitilinn,“ sagði Keown.

„Félagið er stærra en tveir einstaklingar og ef það þarf að segja bless við þá og finna nýja er það rétt ákvörðun að mínu mati. Þeir hafa verið ofdekraðir og brugðust Arsenal á kafla í vetur,“ bætti Keown við.

Sánchez var langbesti leikmaður Arsenal í vetur en Sílemaðurinn skoraði 30 mörk og gaf 15 stoðsendingar. Hann skoraði fyrra mark Arsenal í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea um síðustu helgi.

Özil skoraði 12 mörk og gaf 13 stoðsendingar á nýafstöðnu tímabili.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×