Skoðun

Olía á eld ójöfnuðar

Óli Halldórsson skrifar
Það er áhugavert að gægjast inn um glugga Alþingis nú við lok þingsins og rýna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hún er meginafrakstur þessa þingvetrar, hvernig sem á það er litið. Hún virðist í einfaldri mynd ganga út á þrennt: samdrátt í ríkisrekstri, lágmarksfé í uppbyggingu innviða og því að létta skattbyrði af þeim efnaðari.

Þessari stefnu er svo ætlað að keyra áfram nútímalegt og blómlegt samfélag, byggt á nýsköpun og grænum atvinnuháttum (í anda atvinnustefnu Vinstri grænna frá því fyrir um áratug).

En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Nýsköpun kemur ekki upp úr engu. Sprotar fæðast ekki í fjársveltu menntakerfi. Ferðaþjónusta þrífst illa á holóttum malarvegum, einfasa rafmagni og ótraustu netsambandi. Þessir breyttu atvinnuhættir og sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir útheimtir einfaldlega verulega öflugri innviði og sterkari samrekstur.

Það er bleikur fíll í þessu líka. Það er engin alvöru peningastefna til að jarðtengja fjármálaáætlunina. Engin sátt um það hvernig skuli ná stjórn á ofrisi krónunnar. Það er svo komið að við Íslendingar erum orðin vön því að hugsa og reka okkur sjálf eins og Vogunarsjóðir. Þeir þrífast líka á áhættu og óvissu.

Kjarni vandans birtist svo þegar þessir stóru gallar fjármálaáætlunarinnar leggjast allir saman á eitt; það myndast olía á eld ójöfnuðar. Óstöðugleiki og veik samneysla eykur ójöfnuð. Og það er ójöfnuðurinn sem er mesta áhyggjuefni stjórnmálanna um allan heim. Með breikkandi bilinu fjölgar reiðum á öðrum endanum og firrtum á hinum endanum.

Verst af öllu er svo að á endanum geta jaðrarnir náð saman, þannig að réttlát reiði þeirra sem of lítið hafa umbreytist í byr í segl þeirra firrtu. Og þá geta myndast kjöraðstæður til að rækta pólitísk skrímsli í skápum, sem hafa alltof víða verið að láta á sér kræla í alþjóðlegum stjórnmálum. Það vill held ég ekkert okkar fara þangað.

En við verðum þá að taka beygjuna þegar kemur að næstu gatnamótum.

 

Höfundur er varaþingmaður VG.




Skoðun

Sjá meira


×