Lífið

Brotist inn hjá Bubba: „Ég er orðinn of gamall til að láta svona hluti setja mig úr jafnvægi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bubbi ætlar að fagna afmæli sínu á morgun þrátt fyrir innbrotið í dag.
Bubbi ætlar að fagna afmæli sínu á morgun þrátt fyrir innbrotið í dag. vísir/anton brink
Brotist var inn á heimili Bubba Morthens tónlistarmanns í dag. Þjófurinn er í haldi lögreglu en Bubbi fagnar 61 árs afmæli sínu á morgun. Hann lætur innbrotið ekki á sig fá á þessum tímamótum.

Í samtali við Vísi sagði Bubbi nokkra eyðileggingu hafa hlotist af svaðilför þjófsins.

„Það voru eyðilagðar hurðir og þakgluggi, þannig að þetta var ekkert skemmtilegt.“ Þá var margra ára birgðum af skartgripum í eigu Hrafnhildar Hafsteinsdóttur, eiginkonu Bubba, stolið, auk sérsmíðaðra skartgripa í eigu Bubba sjálfs.

Bubbi segist þó ekki láta innbrotið á sig fá og gefur lítið fyrir tjónið sem kynni að hafa hlotist af verknaðinum.

„Það er hægt að meta tjón á svo marga vegu, þetta eru bara einhverjir hlutir en engu að síður leiðinlegt.“

Þá segir hann innbrotið ekki koma í veg fyrir að hann skemmti sér á afmælinu og óskar þjófnum velfarnaðar.

„Ég er orðinn of gamall til að láta svona hluti setja mig úr jafnvægi, afmælið verður fínt. Ég vona bara að þessi ógæfupiltur, sem braust inn hjá mér, beri gæfu til að finna lífið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×