Erlent

Þremur sleppt úr haldi lögreglu í Manchester

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla athafnar sig í Manchester í dag vegna árásarinnar.
Lögregla athafnar sig í Manchester í dag vegna árásarinnar. Vísir/AFP
Þremur mannanna, sem handteknir hafa verið í tengslum við árásina í Manchester í síðustu viku, var sleppt úr haldi lögreglu í dag. AFP-fréttaveita greinir frá.

Tveimur mönnum, 20 og 24 ára, var sleppt en þeir voru báðir handteknir tveimur dögum eftir árásina í grennd við heimili árásarmannsins, Salman Abedi. Þá var 37 ára gömlum manni, sem handtekinn var í Blackley í norðurhluta Manchester einum degi á eftir ungu mönnunum tveimur, einnig sleppt.

Þetta eru nýjustu vendingar í rannsókn lögreglu á árásinni í Manchester, þar sem hinn 22 ára Salman Abedi sprengdi sig í loft upp fyrir utan Manchester Arena og varð 22 að bana, en nú eru ellefu í haldi lögreglu vegna málsins.

„Það má búast við því að einhverjum sé sleppt úr haldi í rannsóknum af þessu tagi er við staðfestum frásagnir sem okkur hafa borist,“ sagði Russ Jackson, yfirmaður sérstakrar deildar sem berst gegn hryðjuverkum.

Þá sagði Jackson einnig mikilvægt að bláa ferðataskan, sem Abedi sást draga á eftir sér nokkrum dögum fyrir árásina, finnist eins fljótt og auðið er.


Tengdar fréttir

Lögregla gerir húsleit skammt frá Manchester

Lögregla í Bretlandi gerir nú húsleit á heimili í Wigan í tengslum við hryðjuverkaárásina í Manchester í síðustu viku þar sem 22 létust og tugir særðust.

Ferðir árásarmannsins í Manchester kortlagðar frekar

Lögregla í Manchester handtók í dag 23 ára gamlan mann í Sussex í Englandi í tengslum við hryðjuverkin í Manchester. Þá sendu lögregluyfirvöld frá sér nýja mynd af árásarmanninum sem sýnir hann draga á eftir sér bláa ferðatösku fáeinum dögum fyrir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×