Erlent

Tafarlausra aðgerða þörf í Jemen vegna hungursneyðar og kólerufaraldurs

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Skortur er á matvælum og öðrum nauðsynjum í Jemen.
Skortur er á matvælum og öðrum nauðsynjum í Jemen. vísir/getty
Stephen O‘Brien, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að tafarlausra aðgerða sé þörf í Jemen en þar geisar nú kólerufaraldur og er hætta á að sjö milljónir manna láti lífið vegna hungursneyðar sem er yfirvofandi.

Nú þegar hafa 500 manns dáið úr kóleru og búast Sameinuðu þjóðirnar við 150 þúsund tilfellum til viðbótar á næstu sex mánuðum, að því er fram kemur í frétt BBC

Styrjöld hefur geisað í landinu í tvö ár þar sem Hútar, sem njóta stuðnings Írans, berjast við stjórnarherinn. Talið er að allt að 10 þúsund manns hafi látist í átökunum og 44 þúsund særst. Skortur er á matvælum og helstu nauðsynjum í landinu.

O‘Brien sagði að ástandið í Jemen væri ekki tilviljun eða afleiðing af einhverju sem enginn fengi ráðið við heldur væri mun frekar um að kenna stríðandi fylkingum í landinu og svo aðgerðarleysi alþjóðasamfélagsins.

„Jemenska þjóðin líður skort, þjáist af sjúkdómum og deyr á meðan heimurinn horfir á. Hættuástand er ekki handan við hornið heldur er það hér nú þegar, á okkar vakt,“ sagði O‘Brien við öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag.

Þörf er á rúmlega 2 milljörðum bandaríkjadala í neyðaraðstoð í Jemen en í máli O‘Brien kom fram að þjóðir heims hefðu einungis lagt til 24 prósent af þeirri upphæð þrátt fyrir fögur fyrirheit um að leggja meira af mörkum.

Sameinuðu þjóðirnar telja að 18,8 milljónir manna í Jemen þurfi á mannúðaraðstoð að halda.


Tengdar fréttir

Hungursneyð í Jemen

Hungursneyð ríkir í Jemen af völdum langvarandi borgarastyrjaldar. Talið er að barn yngra en fimm ára svelti í hel á tíu mínútna fresti í landinu. Áætlað er að brýn þörf sé á ríflega 200 milljarða króna neyðaraðstoð til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×