Erlent

Trump dillaði sér í sverðadansi eftir milljarða vopnasölusamning

Kjartan Kjartansson skrifar
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádí-Arabíu, tekur á móti Donald og Melaniu Trump.
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádí-Arabíu, tekur á móti Donald og Melaniu Trump. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti virtist skemmta sér hið besta þegar hann dillaði sér í hefðbundnum sverðadansi í opinberri heimsókn hans í Sádí-Arabíu í dag. Þar skrifaði hann einnig undir milljarða dollara vopnasölusamning.

Sverðadansinn kallast ardah en aðeins karlmenn stíga hann. Samkvæmt frétt CNN er ardah blanda af dansi, trommuslætti og ljóðasöngli. Hann er gjarnan dansaður við hátíðleg tilefni eins og brúðkaup eða á helgidögum.

CNN segir að Trump hafi hoppað með brosandi. Utanríkisráðherrann Rex Tillerson og viðskiptaráðherrann Wilbur Ross hafi einnig haft sverð á herðum sér.

Áður hafði Trump skrifað undir samning um 110 milljarða dollara vopnasölusamning við Sáda. Hvíta húsið fullyrðir að þetta sé stærsti vopnasölusamningur í sögu Bandaríkjanna.

Tillerson segir að tilgangur samnings sé að vinna gegn „illum“ áhrifum Írana, helstu keppinauta Sáda um völd og áhrif í heimshlutanum samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Hægt er að sjá hluta af sverðadansinum í myndskeiði AP-fréttastofunnar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×