Erlent

Vilja endurnýjanlega orku í stað kjarnorku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vindmyllur á borð við þessa munu nú í auknum mæli sjá Svisslendingum fyrir orku.
Vindmyllur á borð við þessa munu nú í auknum mæli sjá Svisslendingum fyrir orku. Vísir/AFP
Yfir 58 prósent kjósenda greiddu atkvæði með svokölluðum umhverfisvænni orkugjöfum, á kostnað kjarnorku, í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss í dag, sunnudag. BBC greinir frá.

Í Sviss eru nú fimm kjarnorkuver sem sjá þjóðinni fyrir um þriðjungi orkuþarfar sinnar. Ekki er ljóst hvenær verin verða tekin úr notkun en niðurstöður kosninganna munu nú gefa sólar- og vindorku aukið vægi í svissneskri orkuframleiðslu.

Andstæðingar breytinganna höfðu varað við því að þær yrðu of kostnaðarsamar og kæmu til með að „spilla“ landslagi. Regula Rytz, formaður Græningja í Sviss, var þó hæstánægð með niðurstöðurnar. „Svissneska þjóðin hefur sagt „nei“ við byggingu nýrra kjarnorkuvera og „já“ við þróun á endurnýjanlegri orku, þetta er algjörlega stórfenglegt,“ sagði hún.

Yfirvöld í Sviss lögðu fyrst til að kjarnorkuverum yrði lokað þar í landi í kjölfar kjarnorkuslyssins í Fukushima í Japan árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×