Innlent

Geir Jón æfur vegna brottvikningar lögreglumanns

Jakob Bjarnar skrifar
Geir Jón krefst þess að Sigríður Andersen grípi inní og stöðvi þetta sem hann kallar ósvinnu. En málið heyrir undir ríkislögreglustjóra sem er Haraldur Johannessen.
Geir Jón krefst þess að Sigríður Andersen grípi inní og stöðvi þetta sem hann kallar ósvinnu. En málið heyrir undir ríkislögreglustjóra sem er Haraldur Johannessen.
„Ég mun ekki unna mér hvíldar fyrr en búið er að lagfæra þetta,“ segir Geir Jón Þórisson fyrrverandi yfirlögregluþjónn og fyrrverandi formaður félags yfirlögregluþjóna.

Afar þungt hljóð er í Geir Jóni vegna brottvikningar Kristjáns Þorbjörnssonar yfirlögregluþjóns á Blönduósi. Honum var vikið frá störfum ári áður en hann átti að fara á eftirlaun, en lögreglumenn fara á eftirlaun við 65 ára aldur.

Enginn átti að missa vinnu við sameiningu embætta

RÚV greindi frá þessu máli fyrir nokkru en Geir Jón var í viðtali í Bítinu nú í morgun og var afar þungt í honum hljóðið vegna málsins. Hann krefst þess og ætlast til þess að Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra grípi inní.

Geir Jón segir þetta algerlega fordæmalaust þrátt fyrir erfiðan rekstur lögreglunnar í gegnum tíðina. Fyrir því sé ástæða en þegar til stóð að stækka og þar með fækka lögregluembættum í landinu, þetta er í tíð Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra, hafi legið algerlega fyrir, það hafi verið fastmælum bundið, að enginn lögreglumaður myndi missa starf við þá sameiningu.

„Á það var lögð rík áhersla og ef yrðu of margir yfirmenn myndi það jafnast út þegar menn færu á eftirlaun. Þetta var samkomulag allra á milli og allir gengu frá borði með þennan skilning og þetta samkomulag. Og engum hefur látið það detta sér til hugar að víkja frá lögreglumanni fyrr en núna,“ segir Geir Jón sem á þeim tíma var formaður félags yfirlögregluþjóna og kom að þessum samningum ásamt fulltrúum lögreglustjóra og landsambands lögreglumanna.

Látinn fara í sparnaðarskyni

Fyrir voru fjórir yfirlögregluþjónar á fleti og ljóst að þannig yrði það ekki til frambúðar en hugsað sem svo að þetta myndi jafna sig þegar menn færu á eftirlaun.

„Aldrei inni í myndinni fram á þennan dag, þrátt fyrir erfiðan rekstur, að æðsti yfirmaður næstur lögreglustjóra, yrði vikið frá störfum. Fastmælum bundið og ég tek þetta nærri mér því orð skulu standa og samningar standa Og fordómalaust að æviskipaður yfirlögregluþjónn, sem hefur starfað í yfir 30 ár með óflekkaðan feril, með betri mönnum og á eitt ár eftir þegar biðlaun verða að fullu greitt, sé vikið frá störfum.“

Krefst þess að dómsmálaráðherra grípi inní

Geir Jón segir þetta koma allstaðar fram í greinagerðum skriflega og þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma að aldrei skuli starfsmenn gjalda þessara breytinga. „Því er þetta svo fastmælum bundið að þessi gjörningur sem þarna hefur átt sér stað er algerlega á skjön við allt. Ástæðan fyrir því að honum er vikið frá með svo skjótum hætti er vegna þess að það er verið að spara. Og gert á svo rangan hátt,“ segir Geir Jón og ljóst ég honum er heitt í hamsi vegna málsins:

„Ég ætlast til þess að núverandi hæstvirtur dómsmálaráðherra, Sigríður Á Andersen, grípi inní og stöðvi þessa ósvinnu. Þetta hefur aldrei gerst í sögu lögreglunnar á Íslandi, með þessu hætti. Þarna er verið að koma illa fram við mann sem hefur gegnt sínu starfi með sóma. Lögreglan á Blönduósi þekkt fyrir að hafa staðið sig vel. Ég á ekki orð yfir þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×