Viðskipti innlent

Stjórnarformaður Arion banka hættir og Guðrún Johnsen tekur við

Hörður Ægisson skrifar
Monica Caneman, sem er frá Svíþjóð, hefur verið stjórnarformaður Arion banka frá árinu 2010.
Monica Caneman, sem er frá Svíþjóð, hefur verið stjórnarformaður Arion banka frá árinu 2010.
Monica Caneman hefur ákveðið að láta af stjórnarsetu í Arion banka en hún hefur gegnt stjórnarformennsku í bankanum frá árinu 2010. Guðrún Johnsen, sem hefur verið varaformaður á tímabilinu, tekur við sem stjórnarformaður bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en þar er haft eftir Monicu að nýlegar breytingar á eignarhaldi bankans marki ákveðin þáttaskil. „Frekari breytingar á eignarhaldi munu eiga sér stað á næstunni og nýr kafli er því að hefjast. Ég tel rétt á þessum tímapunkti að láta öðrum eftir stjórnarformennsku.“

Tilkynnt var um kaup bandarískra vogunarsjóða og Goldman Sachs á samanlagt tæplega 30 prósenta hlut í bankanum í mars síðastliðnum. Þá hefur fjárfestahópurinn jafnframt kauprétt á liðlega 22 prósenta hlut í viðbót síðar á árinu samhliða því að stefnt er að skráningu bankans á markað.  

Monica segir að það hafi verið ánægjulegt að taka þátt í uppbyggingu bankans á undanförnum sjö árum og upplifa þær jákvæðu breytingar sem hafa átt sér stað á þeim tíma.

„Þetta hefur verið viðburðaríkur tími þar sem bankinn, rétt eins og íslenskt efnahagslíf, hefur styrkst á öllum sviðum. Arion banki nýtur nú góðrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar og er fjárhagslega sterkur. Mikilvægasti drifkraftur bankans er frábært starfsfólk sem hefur staðið sig virkilega vel á undanförnum árum við að byggja upp góðan banka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×