Erlent

CIA kemur á fót aðgerðastöð til að bregðast við Norður Kóreu

Birgir Olgeirsson skrifar
Kim Jong Un, leiðtogi Norður Kóreu.
Kim Jong Un, leiðtogi Norður Kóreu. Vísir/EPA
Leyniþjónusta Bandaríkjanna, CIA, hefur komið á fót aðgerðastöð sem er ætlað að bregðast við þeirri hættu sem stafar af vopnabúri Norður Kóreu og hinum óútreiknanlega leiðtoga Norður Kóreumanna, Kim Jong Un.

Greint er frá þessu á vef bandarísku fréttastofunnar CNN en þar segir að stofnun þessarar aðgerðastöðvar muni gera bandarísku leyniþjónustunni kleift að bregðast við þessari ógn af öllum sínum mætti.

Aðgerðastöðin verður í höfuðstöðvum bandarísku leyniþjónustunnar í Langley í Virginíu-fylki Bandaríkjanna. Þannig verði hægt að auka samstarf allra sérfræðinga CIA og stjórnenda leyniþjónustunnar til að takast á við þá ógn sem Bandaríkjamenn telja að sé frá Norður Kóreu.

Búist er við því að hópurinn, sem mun starfa í þessari aðgerðastöð, muni gefa frá sér skýrslu tvisvar á dag til stjórnar Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

Stjórnandi bandarísku leyniþjónustunnar, Mike Pompeo, segir stofnun þessarar aðgerðastöðvar beina sjónum leyniþjónustunnar að þeirri miklu ógn sem stafar af Norður Kóreumönnum, en hann segir hernaðaryfirvöld þar í landi hafa fjölgað tilraunum með kjarnorkuvopn og skotflaugum til muna á síðustu mánuðum til að efla vopnabúrið.

CNN segir fulltrúa innan bandarísku leyniþjónustunnar búast við því að samstarf við leyniþjónustuna í Suður Kóreu eiga eftir að vera mikið.

Þessi ákvörðun CIA er sögð senda skýr skilaboð til Donalds Trump að leyniþjónustan sé vel meðvituð um utanríkisstefnu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×