Enski boltinn

Hasseilbaink segir Chelsea-liðið í dag betra en liðið sem hann og Eiður Smári spiluðu með

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jimmy Floyd Hasselbaink fór yfir muninn á Chelsea-liðinu 2002 og 2017.
Jimmy Floyd Hasselbaink fór yfir muninn á Chelsea-liðinu 2002 og 2017. mynd/skjáskot
Chelsea getur orðið Englandsmeistari í kvöld þegar liðið mætir West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Leikurinn hefst klukkan 19.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

Í tilefni þess var sjónvarpsþátturinn Soccer AM á sky Sports með sérstaka Facebook Live-upphitun í beinni útsendingu frá bar í Lundúnum þar sem stuðningsmenn Chelsea mættu og hituðu upp með Jimmy Floyd Hasselbaink, fyrrverandi framherja liðsins.

Hasselbaink myndaði frábært framherjapar með Eiði Smára Guðjohnsen hjá Chelsea upp úr aldamótum en margir stuðningsmenn liðsins minnast þeirra sem eins besta framherjapars í sögu liðsins. Upp á sitt besta voru þeir nánast óstöðvandi.

Hasselbaink var beðinn um að fara yfir muninn á Chelsea-liðinu sem spilaði bikarúrslitaleikinn á móti Arsenal árið 2002 og svo Chelsea-liðinu hans Antonio Conte sem getur orðið Englandsmeistari í kvöld. Chelsea tapaði umræddum úrslitaleik, 2-0. Sá hollenski segir liðið í dag vera betra.

„Við vorum með mjög gott lið og góða einstaklinga. Við spiluðum líka öðruvísi kerfi en Chelsea-liðið í dag er betra,“ segir Jimmy Floyd Hasseilbaink.

Hann fékk svo nokkrar spurningar í beinni útsendingu og ein þeirra var hver var mesta partíljónið. Hann sagðist ekki vilja nefna nein nöfn og henda mönnum undir rútuna.

Innslagið með Jimmy Floyd má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×