Innlent

Tæplega helmingur þjóðarinnar fengið vegabréf á tveimur árum

Heimir Már Pétursson skrifar
Íslendingar ferðast mun meira til útlanda nú en á árunum eftir hrun sem kemur fram í mikilli aukningu á útgáfu vegabréfa. En um 140 þúsund vegabréf hafa verið gefin út síðast liðin tvö ár. Forgangsraða þarf útgáfu vegabréfa næsta mánuðinn vegna bruna hjá þeim sem framleiðir þau í Kanada.

Þjóðskrá Íslands átti von á þrjátíu þúsund vegabréfum í byrjun þessa mánaðar. En sú afhending tefst vegna bruna hjá framleiðandanum í Kanada. Enginn ætti þó að lenda í vandræðum vegna þessa.

„Við erum með nokkur þúsund vegabréf á lager sem samanstendur af bæði almennum vegabréfum og neyðarvegabréfum. Það er alveg nægjanlegt til þess að sinna öllum þeim umsóknum sem eru komnar og sem munu koma fram í miðjan júní,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands.

En til að koma í veg fyrir að enginn lendi í því að fá ekki vegabréf tímalega fyrir brottför til útlanda tóku nýjar reglur tímabundið gildi í dag varðandi afgreiðslu vegabréfa. Þeir sem eru á leið til Evrópu fyrir 10 júní munu fá svo kallað neyðarvegabréf gefið út til skamms tíma en þeir sem eru að fara til landa utan Evrópu og þá sérstaklega til Bandaríkjanna, fá almennt vegabréf. Þá verða þeir sem þurfa vegabréf á næstu vikum að sækja um það fyrst á heimasíðu Þjóðskrár.

„Við breytum í raun og veru útgáfuferli vegabréfa. Í stað þess að gefa út vegabréf eftir umsóknardeginum verða vegabréf gefin út eftir brottfarardegi,“ segir Margrét.

Eftirspurn eftir vegabréfum hefur aukist á undanförnum árum með meiri kaupmætti, þannig voru gefin út 70 þúsund vegabréf árið 2015 og 71 þúsund í fyrra, eða 141 þúsund vegabréf á tveimur árum.

Þannig að þið finnið fyrir því að fólk er að ferðast meira?

„Já, já það er alveg augljóst mál. Hefur verið allt árið í fyrra og kippurinn byrjaði eiginlega árið 2015,“ segir Margrét Hauksdóttir.


Tengdar fréttir

Útgáfu vegabréfa forgangsraðað eftir brottfarardegi

Þjóðskrá Íslands mun forgangsraða útgáfu nýrra vegabréfa næstu fjórar vikurnar eftir áætlaðri brottför fólks til annarra landa, vegna skorts á nýjum vegabréfum. Forstjóri Þjóðskrár segir að enginn þurfi þó að óttast að fá ekki vegabréf í tíma þótt sumir verði að láta sér neyðarvegabréf duga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×