Erlent

Ástrali hlaut 22 ára dóm fyrir árás á tvo bakpokaferðalanga

Atli Ísleifsson skrifar
Roman Heinze getur fyrst sótt um reynslulausn eftir sautján ár.
Roman Heinze getur fyrst sótt um reynslulausn eftir sautján ár. Facebook
Domstóll í Ástralíu hefur dæmt 61 árs karlmann í 22 ára fangelsi fyrir að ráðast á tvo bakpokaferðalanga á afskekktri strönd.

Í frétt BBC kemur fram að Roman Heinze hafi bundið og brotið kynferðislega gegn brasilískri konu áður en hann ók á þýska vinkonu hennar í Suður-Ástralíu á síðasta ári. Konurnar eru báðar 24 ára að aldri. Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir árás á annan bakpokaferðalang árið 2014.

Dómarinn sagði Heinze „gjörsamlega siðspilltan“ og að hann hafi skaðað orðspor Ástralíu sem öruggs og vinalegs áfangastaðar fyrir ferðamenn.

Heinze hafði komist í samband við konurnar þegar hann svaraði þýsku konunni sem hafði birt auglýsingu á netsíðunni Gumtree þar sem hún auglýsti eftir bílfari frá Adelaide til Melbourne.

Maðurinn ók konunum að ströndinni við Salt Creek þar sem þau komu upp tjaldi. Á meðan þýska konan sofnaði í bíl Heinze fór hann með brasilísku konuna á stað á ströndinni þar sem hann sagði hana geta séð kengúrur. Þar batt hann úlnliði og ökkla konunnar, skar bikini hennar af með hníf, sló og beitti hana kynferðisofbeldi.

Þýska konan vaknaði svo við óp hinnar brasilísku og reyndi að stöðva manninn sem sló hana þá með hamri. Við það reyndi þýska konan að flýja, en Heinze fór upp í bíl sinn og keyrði utan í hana. Veiðimenn sem heyrðu öskur brasilísku konunnar komu svo á staðinn og höfðu samband við lögreglu.

Heinze getur fyrst sótt um reynslulausn eftir sautján ár. Hann hefur ákveðið að áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×