Innlent

Til skoðunar að lengja opnunartíma tippsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá framkvæmdunum við Miklubraut.
Frá framkvæmdunum við Miklubraut. vísir/anton brink
Það skýrist að öllum líkindum í dag hvort að opnunartími tippsins í Bolaöldum verði lengdur en fjallað hefur verið um það að verktakinn sem vinnur að framkvæmdunum á Miklubraut sé bundinn af opnunartíma tippsins þessa dagana þar sem hann þarf að komast í að losa sig við jarðveg. Tekið er á móti honum í tippnum.

Magnús Ólason, forsvarsmaður tippsins, segir í samtali við Vísi að hann sé nú að skoða hvort ekki sé hægt að lengja opnunartímann en það kæmi ekki aðeins verktakanum á Miklubraut til góða heldur einnig öðrum verktökum sem eru í framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.

Að sögn Magnúsar þarf hann nú að skoða það með starfsfólki sínu hvort hægt sé að lengja opnunartímann en hann segist sjá fram á það að geta allavega haft opið til klukkan 18 á virkum dögum í staðinn fyrir 17:30. Tippurinn lokar svo klukkan 16 á föstudögum og er einnig lokaður um helgar en hann opnar klukkan 8 virka daga.

Björn Sigurðsson, eigandi og forstjóri Bjössa ehf., verktakafyrirtækisins sem vinnur að framkvæmdunum á Miklubraut segir að það muni um hvern hálftíma sem tippurinn er opinn lengur.

„Það myndi þó muna mest fyrir okkur ef það væri opið á laugardögum og okkur skilst að það sé verið að skoða það hjá þeim hvort hægt sé að hafa opið þá,“ segir Björn í samtali við Vísi.

Aðspurður hversu mikið er eftir af jarðvegsvinnu þeim megin Miklubrautar segir Björn að hann telji það vera í mesta lagi viku en þá farið í að malbika. Sams konar jarðvegsvinnu þarf síðan að fara í hinu megin á Miklubrautinni þegar framkvæmdir hefjast þar síðar í sumar.


Tengdar fréttir

Verktakinn við Miklubraut bundinn af opnunartíma tippsins

Björn Sigurðsson, eigandi og forstjóri Bjössa ehf., verktakafyrirtækisins sem vinnur að framkvæmdum við Miklubraut segir að hann sé bundinn af opnunartíma jarðvegstippsins í Bolöldu og geti því ekki unnið verkið hraðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×