Gagnrýni

Sverð, seiðkarlar og konungleg vitleysa

King Arthur: Legend of the Sword er ein af ótal myndum sem hafa verið gerðar um Artúr konung.
King Arthur: Legend of the Sword er ein af ótal myndum sem hafa verið gerðar um Artúr konung. NORDICPHOTOS/GETTY
Breski leikstjórinn Guy Ritchie hefur gert það að góðum vana að flytja eitthvað hundgamalt yfir í nýjan, nútímalegri búning og brennimerkja það með sínum eigin stíl. Þetta á við um krimmamyndir hans sem sækja í heimaslóðirnar sem og poppaðra, hasardrifnara efnið frá Hollywood, hvort sem það er Sherlock Holmes, hin stórlega vanmetna The Man from U.N.C.L.E. eða King Arthur.

Það er erfitt að halda tölu á því hversu margar myndir hafa verið gerðar um Artúr konung, riddara Camelots eða galdrana þar í kring, alvarlegar sem yfirdrifnar, en þar bætist núna Ritchie í hópinn og matreiðir goðsagnirnar með sínum brögðum, bæði til hins betra og verra.

Í raun er ekki mikið svigrúm í boði hér til að koma áhorfendum á óvart. King Arthur: Legend of the Sword flytur goðsögnina alveg að byrjunarreitnum; áður en aðalmaðurinn varð konungur og gengur þessi útgáfa út á togstreitu hans við fortíð sína og tökin sem hann hefur á töfrasverði sínu. Úr verður bæði upprisu- og hefndarsaga í einni, löðrandi í fantasíu sem leikur sér að göldrum, risavöxnum dýrum, skúrkum og senum sem eru eins og beint teknar úr tölvuleik. Dark Souls kemur meðal annars upp í hugann.

Ritchie hefur sagt að nálgun sín á King Arthur væri eins konar blanda af Hringadróttinssögu og Snatch og þetta leynir sér ekki. Myndin er metnaðarfull, vel slípuð á marga vegu og nokkuð skemmtileg, svo lengi sem áhorfandinn lætur það ekki trufla sig að hún gengur í gegnum allar helstu klisjurnar sem snúa að upphafssögum.

David Beckham fer með lítið hlutverk í myndinni.NORDICPHOTOS/GETTY

Svolítið tætt mynd

Flest það sem hefur einkennt fyrri myndir leikstjórans finnst hér í ágætu magni; flott músík þar á meðal, háhraða tökur, hress klipping, kómískir stælar og vissulega stæltir og slagsmálaóðir töffarar. Það er ekki vitlaust að segja að flestar myndir leikstjórans búi yfir vissri karlafýlu en þessar betri frá honum hafa yfirleitt verið hlaðnar orku, skrautlegum karakterum og fínum slettum af léttgeggjuðum húmor.

King Arthur er þunn og svolítið tætt mynd, stundumhryllilega illa skrifuð. Hún gengur annars vegar upp með skreytingum leikstjórans, enda hefur hann gott auga fyrir því að stilla upp römmum með ferskum hætti. Klippingin gefur henni líka svakalegan púls, yfirleitt með aðstoð frá stefjum eftir Daniel Pemberton.

Sviðsmyndir, brellur og búningar eru í toppflokki, sem er enn eitt merkið um að framleiðsluaurinn sést allur á skjánum. Leikhópurinn lyftir heildarpakkanum líka aðeins, þótt varla sé hægt að segja að hverri frammistöðu fylgi einhver dýpt. Ekkert kippir þó áhorfandanum hraðar úr myndinni en ákvörðunin um að setja David Beckham í gestahlutverk og gefa honum nokkrar línur.

Í aðalhlutverkinu kemur hinn hestmassaði Charlie Hunnam hreint þokkalega út, varla angandi af miklum persónutöfrum en þó með stóísku hetjutaktana á hreinu og mýkri hlið. Jude Law ber sig annars eins og hann skemmti sér konunglega við að leika valdasjúkt illmenni sem daðrar við galdra og verður sífellt ómannúðlegri og kaldari með hverri senu.

Hinir þaulreyndu Djimon Hounsou, Eric Bana, Aidan Gillen og fleiri fylla líka ágætlega upp í grynnri hlutverk. Hitt kynið fær aftur á móti lítið til að vinna með. Annabelle Wallis er t.d. í stóru hlutverki en virðist ekkert rými fá og eina, svala seiðkonan í myndinni, leikin af Astrid Bergès-Frisbey, er ekki einu sinni nafngreind.

Að vissu leyti er erfitt að finna dæmigerðari stórmynd, sem best má njóta með heilann sofandi, en hins vegar er myndin nógu hröð, fjörug og einföld afþreying til þess að hægt sé að horfa fram hjá göllum hennar, eins ófáir og þeir eru. Sem ákveðinn plús má einnig segja að þessi nýja mynd um King Arthur sé ekki eins misheppnuð og sú frá 2004 þar sem Clive Owen fór með titilhlutverkið, en seint verður komist með tærnar þar sem perlan Ex­calibur frá ‘81 hefur hælana.

Niðurstaða: Bætt er upp fyrir þunnildin með fínum hraða, flottum pakkningum og prýðilegu afþreyingargildi. En gætið þess bara að stilla væntingunum í hóf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×