Viðskipti innlent

Hægt að fjarstýra heimilinu með síma

Sæunn Gísladóttir skrifar
Öryggisfyrirtæki hafa nú byrjað að þróa tækni sem leyfir notendum að nýta snjalltækni til öryggisgæslu á heimilum sínum þegar þeir eru að heiman.
Öryggisfyrirtæki hafa nú byrjað að þróa tækni sem leyfir notendum að nýta snjalltækni til öryggisgæslu á heimilum sínum þegar þeir eru að heiman. Vísir/Getty

Mikið vatn hefur runnið til sjávar undanfarin árin með snjalltækni inni á heimilum og í auknum mæli er hægt að stýra ýmsum heimilistækjum, lýsingu og öðru með snjallsímanum. Öryggisfyrirtæki hafa nú byrjað að þróa tækni sem leyfir notendum að nýta snjalltækni til öryggisgæslu á heimilum sínum þegar þeir eru að heiman.

Hjörtur Vigfússon, markaðsstjóri Securitas.

Securitas er að koma með þessa tækni til landsins. Fyrirtækið mun forsýna Snjallvaktina, nýja öryggislausn, á sýningunni Amazing Home Show í Laugardalshöll um helgina. Stefnt er að því að lausnin fari svo í sölu í haust.

Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri hjá Securitas, segir þetta vera nýja nálgun á öryggismál. „Þetta er miklu meira en öryggiskerfi, þú ert farinn að stýra ýmsu á heimilinu. Þú getur til dæmis stillt ljós, séð hver var að hringja dyrabjöllunni, svarað, opnað dyr, stýrt hita og svo er hægt að stýra myndavélum bæði inni og úti.“

Hann segir þetta í raun vera næsta skref í heimavörn Securitas. „Viðskiptavinum mun bjóðast að uppfæra kerfið sitt í snjallari heimavörn. Almennt veitir þetta fólki aukin þægindi. Öllu þessu er stýrt með einu smáforriti.“

Securitas fór í samstarf við fyrirtækið Alarm.com til að bjóða upp á tæknina en það fyrirtæki er leiðandi í þeirri tækni. Margir óttast hakkara í kerfum sem þessum, í ljósi þess segir Hjörtur mikilvægt að velja vel með hverjum er farið í samstarf.

Hjörtur segist ekki í vafa um það að Íslendingar muni fagna þessari nýjung. „Íslendingar eru frekar fljótir til, og símaeign og símanotkun er með því mesta sem er í heiminum, því held ég að þetta muni nýtast íslenskum markaði mjög vel.“
Fleiri fréttir

Sjá meira