Erlent

Bardagi hins nýja gegn hinu gamla veldur deilum í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Wei Lei og Xy Xiaodong skömmu eftir að bardaginn stutti hófst.
Wei Lei og Xy Xiaodong skömmu eftir að bardaginn stutti hófst.
MMA bardagakappinn Xu Xiaodong hefur komið miklum deilum af stað í Kína eftir að hann gjörsigraði iðkanda hinnar hefðubundnu bardagalistar tai chi á einungis tíu sekúndum. Myndbönd af bardaganum hafa vakið gífurlega athygli og komið miklum deilum af stað í Kína.

Xiaodong hafði í nokkrar vikur talað um iðkendur hefðbundinna bardagaíþrótta í Kína og kallað þá svindlara. Hann hafði lært þær sjálfur og sagði þær einkennast af hræsni og svikum. Þá hafði hann farið fram á að einhver þeirra reyndi að standa í hárínu á honum svo hann gæti sýnt að hinar gömlu leiðir hefðu ekkert í hinar nýju.

Það var svo Wei Lei sem svaraði kallinu.

Bardaginn fór fram í síðasta og tók einungis nokkrar sekúndur.

Hefðbundnar bardagalistir hafa lengi átt undir högg að sækja í Kína og bardaginn hefur velt upp þeirri spurningu í fjölmiðlum ytra og á samfélagsmiðlum hvort að eitthvað gagn sé af þeim í alvöru bardögum.

Þó hefur Xiaodong orðið fyrir gífurlegri gagnrýni fyrir sigurinn.

Íþróttasambönd hafa fordæmt hann í yfirlýsingum og segja framferði hans meðal annars brjóta gegn boðskap bardagalista.

„Ég hef tapað öllu. Ferlinum og öllu. Ég held að margir hafi misskilið mig. Ég er að berjast gegn svikum, en nú hef ég orðið að skotmarki.“

Þetta skrifaði Xiaodong á samfélagsmiðlinum Weibo, en reikningi hans hefur nú verið lokað.

Umræðan og deilurnar halda þó áfram. Samkvæmt Forbes hefur kínverskur milljarðamæringur heitið miklum peningum í verðlaun fyrir þann iðkanda hefðbundinna bardagalista sem sigrar Xiaodong.

Xu Sheng segist vilja „vekja upp drauminn um kínverskar bardagalistir“ og að margir meistarar hafi sett sig í samband við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×